Þetta er spurningin sem brennur á vörum mér núna. Eru gallabuxurnar mínar búnar að missa það? Reyndar á ég bara eitt stykki, lágar í mittið, keyptar í sumar og ég hef notað þær fullt en aðallega um helgar þegar ég nenni ekki að klæða mig og þá set ég þær saman við stuttermaboli og einfalda jakka.
Sem er akkúrat eðli gallabuxna – fötin sem þú klæðir þig í þegar þú nennir ekki að vera fín svo að eftir þér sé tekið.
Í gallabuxum lafir líka þetta litla bonn sem ég get þó enn dillað, eins og gamall, notaður tepoki! Hver vill það á þessum mest sexí stað konunnar?
Í framhaldi af því dettur mér í hug að þegar ég bjó í Frakklandi var þar lögð mikil áhersla á bonn kvenna. Þar er málið að bonnið sé sem stinnast, ávalast og yndislegast og konur sýna á sér bonnið með því að klæðast stuttum jökkum, pilsum og sokkabuxum svo eitthvað sé nefnt.
Eiginlega klæða gallabuxur helst konur sem eru með strákslegan vöxt, þær sem eru lausar við rass og mjaðmir. Fyrir þær sem eru kvenlega vaxnar og með línurnar í lagi er ekkert herfilegra en gallabuxur. Þær hreinlega gera konuna að litlum vinnumanni, hún er tilbúin í öll almenn verkamannastörf, sem er auðvitað upprunalegt hlutverk gallabuxnanna, þær eru vinnuföt.
Spáðu aðeins í þetta og ímyndaðu þér svo hvað margar konur gætu verið miklu kvenlegri í fallegum svörtum buxum eða jafnvel pilsi- það er nefninlegra fátt fallegra og klassískara en einmitt hinn kvenlegi vöxtur.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.