Fegurð er teygjanlegt hugtak
Flest það sem fólk gerir til að líta betur út er samþykkt af fjöldanum svo lengi sem fegurðarstaðallinn er sá sami í menningunni því fegurð er mjög teygjanlegt hugtak.
Það sem okkur finnst fallegt fer allt eftir því hvar á jörðinni við erum stödd og á hvaða tíma við lifum.
Að fá sér tattú flokkast til dæmis undir fegrunaraðgerð fyrir mörgum einstaklingum, ættbálkum og þjóðum. Það sama má segja um andlitsfarðanir, hárlitun og fleira.
Hér í okkar vestræna heimi er til dæmis vandfundin sú manneskja sem hefur eitthvað á móti því að fólk fái sér göt í eyrun en um leið og gatið er komið annarsstaðar á líkamann þá kemur annað hljóð í strokkinn og götunin getur orðið tilefni til hneykslunar eða jafnvel uppsagnar frá vinnu.
Að fá sér gat í eyrað er minniháttar aðgerð -en aðgerð engu að síður. Eftir aðgerðina er manneskjan komin með aðskotahlut í líkamann líkt og þegar hún fær sér sílikon í brjóstin. Tannréttingar eru jafnframt fegrunaraðgerðir í mörgum tilfellum þó að það sé ekki litið á þær sem slíkar og vissulega er háralitun ætlað að bæta útlitið.
Langur háls er stöðutákn á Burma
Á Burma þykir það mikið og fínt stöðutákn þegar konur eru með marga gullhringi utan umhálsinn en þetta er gert til að hálsinn verði sem lengstur.
Langur háls er fyrir þeim fegurðar -og stöðutákn líkt og Chanel sólgleraugu, Prada skór og Tesla eru fyrir okkur.
Kona með langan gullháls í Burma þykir þar álíka glæsileg og vel grúmuð og glamúrus dama sem situr með litla putta út í loftið og drekkur espresso bollann sinn á Hilton. Engum dettur í hug að gagnrýna hálslöngu gíraffakonurnar í Burma fyrir þetta uppátæki, hvað þá líta á þær sem fórnarlömb áróðurs. Okkur finnst þetta bara frekar skrítið og ekki mikið meira en það.
Eins höfum við frá barnæsku furðað okkur á þessum ættbálkum í Afríku sem gleðja fegurðarskyn sitt og annarra með því að strekkja neðri vörina eins langt niður hökuna og hægt er.
Helst niður að geirvörtum. Þau smella líka beini í gegnum nefið og tosa eyrnasneplana niður að öxlum. Þetta þykir þeim bara rosa smart. Því lengri sneplar, því fallegra.
Hér í okkar vestræna heimi láta konur t.d. sílikon í brjóstin á sér og menn láta taka í burtu bauga undir augum eða fjarlægja undirhöku. Þetta eru aðgerðir sem fólk gengur í gegnum til að breyta þjóðfélagsstöðu sinni og/eða verða meira aðlaðandi í augum samferðamanna sinna.
Misjafn siður í hverju landi
Það er samt misjafnt hvernig litið er á þessar aðgerðir í okkar vestrænu veröld.
Í Bandaríkjunum og þá sérstaklega Los Angeles og víðar í Kaliforníu, þykja lýtaaðgerðir mjög sjálfsagðar og margar konur og karlar fara hreinlega reglubundið til lýtalæknis til að láta breyta hinu og þessu við útlitið. Sumt fólk er meira að segja orðið háð svona aðgerðum og verður afbakað fyrir vikið.
Michael Jackson heitinn er gott dæmi um Kaliforníubúa sem gekk full langt í þessari fíkn og öll erum við sammála um að hann hafi farið langt yfir mörkin sem skilja á milli fegurðar og ófrýnileika, enda var hann hálf ójarðneskur í útliti og minnti helst á verk eftir Picasso eða einstakling úr einhverjum sjúkum álfheimum.
Þó ber að hafa það hugfast að þó að flestum hafi ekki þótt hann sætur þá gaf hann sjálfur út yfirlýsingu árið 2006 um að þetta væri komið gott – hann væri orðin sáttur við útlit sitt og það hlýtur á endanum að skipta mestu máli. Það er, að einstaklingurinn sé sjálfur sáttur við eigið útlit.
Rándýrar aðgerðir aðeins fyrir þá ríku
Í Los Angeles kostar mikið meira að fara í svona aðgerðir en á Íslandi og þar eru ummerki um aðgerðir, líkt og í Burma, merki um það að manneskjan eigi mikla peninga og geti þar með leyft sér slíkan munað. Ummerki eftir vissa lýtalækna geta líka verið stöðutákn en sumir þeirra leggja sig fram við að skilja eftir sig persónulegt handbragð.
Dr. Man, sem er vinsæll lýtalæknir í Los Angeles, telur sig t.d. hafa reiknað út hið fullkomna andlit og máli sínu til stuðnings ber hann útreikningana saman við andlitið á Grace Kelly sem smellpassar við formúluna. Afrakstur aðgerða hans er sá að allar konur sem til hans fara koma út með keimlík andlit en þau er vel strekkt, há kinnbein, beint nef og þykkar varir.
Reyndar er þetta útlit frekar vinsælt í Los Angeles og ef einhver er ekki alveg með það á hreinu hverju ég er að lýsa þá er bara að kíkja á mynd af leik- og söngkonunni Cher en hún var með þeim fyrstu til að smella á sig þessari „grímu“ dr. Mans.
Breytilegt fegurðarmat og breyttar þarfir
Í upphafi síðustu aldar þóttu konur með stóra rassa, mjó mitti og stór brjóst sérlega aðlaðandi. Um 1920 áttu þær að vera mjóar og brjóstalausar. Árið 1950 þótti aftur sætt að vera svolítið mjúk með mjaðmir og brjóst en þegar Twiggi komst í tísku þá horuðust stelpurnar upp enn á ný. Þetta sveiflast upp og niður og fram og aftur eins og annað í þessu lífi.
Það sem sveiflast og breytist líka eru vandamálin okkar.
Núna höfum við t.d. alls konar „auka“þarfir sem eru jafn raunverulegar og aðrar þarfir. Í dag er afkoman minna mál en áður og þegar við þurfum ekki að leggja eins mikið og afi og amma á okkur við að geta keypt bíl og hús og mat, þá beinum við athyglinni að öðrum málum. Til dæmis; stöðu okkar í þjóðfélaginu, tilfinningum, uppeldi, eignum og síðast en ekki síst – útliti!
Útlitið hefur svo sannarlega alltaf skipt mannfólkið miklu máli en í dag skiptir það meira máli því öll samkeppni er harðari en áður. Það að vera ‘ósamkeppnishæfur’ útlitslega séð getur því orðið að vandamáli þegar það ræður úrslitum um hvort hæfileikar einstaklings fái að njóta sín eða ekki. Allir vita til dæmis að of þungt fólk fær ekki eins auðveldlega vinnu og það sem er í kjörþyngd. Þetta er vissulega mál sem lítið má tala um en engu að síður sorgleg staðreynd. Eðlilega getur þá útlitið orðið að raunverulegu vandamáli sem hefur með afkomuna að gera.
Hvað er æskilegt?
Auðvitað getum við öll verið innilega sammála um að það væri æskilegra að reyna að hressa fyrst upp á andlega ástandið og þar með myndi útlitið lagast. Þetta má m.a. sjá á því hvað fólk verður oft fallegt þegar það er ástfangið. En því miður er þetta ekki svona einfalt, það er ekki hægt að smella fingri og framkalla góða líðan eða þvinga manneskju til að upplifa sjálfa sig á annan hátt en hún gerir.
Ef Sigga horfir í spegil og er alls ekki sátt við það sem hún sér þá er ólíklegt að nokkur heilræði eða hugsjónir geti breytt upplifun hennar á sjálfri sér. Því miður. Nú bjóða læknavísindin fólki upp á að breyta útliti sínu og hafa þar með áhrif á hvernig það sjálft og aðrir dæma.
Loðinn og kynþokkafullur fress
Eflaust þætti öllum æskilegt ef til væri heimur þar sem bæði konur og karlar væru metin að verðleikum en ekki eftir útliti en þessi heimur er einfaldlega ekki til og hugsanlega eru ástæður fyrir því sem liggja ekki endilega í augum uppi.
Til dæmis gæti það spilað inn í að til að halda uppi kerfi í samfélaginu reynum við að skipta hvort öðru í flokka. Við notum margar aðferðir til þess en sú hraðvirkasta og algengasta er að flokka fólk eftir klæðaburði og útliti.
Ósjálfrátt setjum við flest fallega fólkið ‘ofar’ en það sem við teljum óaðlaðandi og þá sitja fegurðarmatið og kynhvötin hlið við hlið í dómarasætinu – því kynhvötin hefur jú oftar en ekki sterkustu áhrifin á það hvaða fólk okkur þykir fallegt. Þannig getur mörgum okkar þótt óvenjuleg manneskja falleg þó hún falli ekki beint undir fegurðarformúluna því kynþokkinn vegur sterkt.
Flokkun okkar á skylt við dýrin. Ef venjuleg bröndótt læða fer út að breima, þá fer það aðallega eftir feldi og ferómónum karldýrsins hvort hún leyfir mök eða ekki. Þannig á t.d. rándýr túnfiskslyktandi kafloðinn persaköttur meiri möguleika á að fjölga sér en Brandur sem fer úr hárum og kominn til ára sinna. Læðunni finnst Brandur ekki fallegur og þar af leiðir að hún er ekki æst í að eiga með honum kettlinga.
Hvaða hópi finnst þér þú tilheyra?
Svo flokkar fólk líka eftir því hvernig það er og hvaðan það kemur: Goth gellur setja sína líka á stall en „jakkafatakarla“ neðar:
Vinstrisinnaðir feminstar setja sína líka á stall en líta svolítið niður á sólbrúnar skvísur sem snobba fyrir merkjavörum og svona má lengi telja. Skoðanabræður og systur virða hvort annað en líta öðruvísi á þá sem þau telja tilheyra öðrum hópum.
Þín flokkun byggist á því hvaða þjóðfélagshópi þér finnst þú tilheyra og ef þú gerir breytingar á sjálfri/sjálfum þér þá spilar það hugsanlega inn í að þú hefur ómeðvitaða löngun til að færa þig á milli þjóðfélagshópa?
Skrá þig úr flokknum og skipta yfir í annan flokk. Breytt sjálfsmynd leiðir þig alltaf á nýjar slóðir og þá gildir einu hvort það eru betri tennur, ný klipping, kílóin burt, ný Ella -brjóstin upp – baugarnir farnir, allt önnur Ella. Gella!
(Þessi grein birtist fyrst í tímaritinu Orðlaus árið 2002 en hefur aðeins verið breytt í takt við tímann)
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.