Einn af hverjum tuttugu er með ADHD. Í fjölskyldum þeirra sem greinast með ADHD er meðaltalið hins vegar einn af hverjum fjórum. Það má því segja að þetta sé eins konar fjölskyldueinkenni.
Á Íslandi greinast fleiri ADHD tilfelli en í nágrannalöndunum ef miðað er við höfðatölu. Sumir hafa jafnvel lagst svo lágt að kalla þetta tískubólu.
Að þessu gefnu langar mig að kasta fram smá kenningu. Áður en ég geri það vil ég segja að allir sem ég þekki með ADHD eru ljómandi skemmtilegar mannverur sem krydda tilveruna hver á sinn hátt.
Ég vil líka taka fram að ég kem úr fjölskyldu sem hefur að geyma einstaklinga með tourette, ADHD, mótþóaþrjóskuröskun og fleira skemmtilegt. Ég á barn sem er með greiningu og sjálf er ég bullandi ofvirk, hvatvís með þráhyggjuhegðun, kæki, athyglisbrest og meðvirkni.
Hérna kemur svo kenningin:
Ef gáð er í íslendingabók.is erum við öll meira og minna skyld. Fjölskylda sem komin er í beinan karllegg af skandenavískum víkingum sem voru útlagar í sínu samfélagi. Menn sem voru óalandi og óferjandi í sínu heimalandi, rífandi kjaft og höggvandi mann og annan.
Í beinan kvennlegg erum við hins vegar komin af írskum og skoskum fljóðum. Skutlum sem skandenavísku ribbaldarnir annað hvort rændu á leið sinni til Íslands eða þá hitt, sem er allt eins líklegt, að þær hafi verið með hjúkkusindrome og meðvirkni í svo miklu hvínandi botni að þær hafi ætlað að bjarga hetjunum okkar að norðan, gera þá að betri mönnum og hafi því farið sjálfviljugar um borð í þeirra fley.
Af Þessu liði er síðan þorri þjóðarinna sprottin og án lítillar kynblöndunar, fyrr en á seinni tímum, hefur þessum hópi tekist að verða rúmlega 325.000 talsins. Þjúhundruðtuttuguogfimmþúsund afkomendur manna sem greinilega voru með framkvæmdagleði, ofvirkni og mótþróaþrjóskuröskun á hæsta stigi og sjálfsagt lítið sem ekkert fjármálavit. Sem sagt ADHD.
Þetta segir mér aðeins það að fullyrðingin, einn af hverjum tuttugu er með ADHD, er röng þegar kemur að íslendingum. Því við erum ein stór fjölskylda sprottin af mönnum með ADHD og því líklegra að einn fjórði íslendinga sé með ADHD. Það gera áttatíuogeittþúsundtvöhundruðogfimmtíu íslendingar.
Þetta er að sjálfsögðu bara kenning úr lausu lofti gripin. Öll erum við sjálfsagt með eitthvað og forfeður okkar hafa sjálfsagt líka verið með eitthvað. Nú á tímum eru bara fleiri lausnir við ólíkum taugamisboðum og heilastarfsemisröskunum. Það eina sem skiptir máli er hvernig við bregðumst við þeim.
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come