Kvikmynda-tónlistar og tískubransinn gera út á það að selja kynlíf. Vinsælustu stjörnurnar eru alla jafna fallegastar og kynþokkafyllstar og unglingstúlkur og piltar um allan heim láta sig dreyma um þær..
Persónulega finnst mér svona “stjörnu-skot” bara hæfa unglingum, enda ekki upplifað þau sjálf síðan Johnny Depp lék í Cry Baby og River Phoenix var enn á lífi.
Mér finnst soldið skrítið þegar fullorðið fólk gjörsamlega dýrkar einhverjar Hollywood stjörnur, tónlistarmenn eða módel og láta sig dreyma um þau.
Ég veit meira að segja um samband tveggja fullorðinna einstaklinga sem endaði vegna “ástar” mannsins á fegurðardís sem vinnur í sjónvarpi, fegurðardísar sem hann hafði aldrei hitt í raunveruleikanum..
Nýlega las ég áhugaverða grein um reynslu blaðakonu af því að eiga í “ástarævintýri” við draumaprinsinn af hvíta tjaldinu. Hún heillaðist svo af honum í mynd sem hann lék í að hún notaði sambönd sín til að koma á viðtali við hann og úr varð ástarsamband sem varði í nokkrar vikur.
Sambandið var auðvitað alls ekki eðlilegt, þau hittust í leyni heima hjá hvor öðru, sáust aldrei saman á almannafæri, fóru aldrei á stefnumót og kvikmyndastjarnan réði algjörlega ferðinni og hafði engan áhuga á að kynnast konunni í alvöru heldur talaði um sjálfan sig út í eitt og hún hreifst með eins og kjáni og ímyndaði sér að þetta væri sönn ást.
Henni fannst svo magnað að vera í alvöru með þessum draumaprins sem hún hafði fylgst með í “ástarvellum” á hvíta tjaldinu og ímyndaði sér að hann væri í raun eins og persónurnar sem hann lék. En eftir nokkrar vikur sagði draumaprinsinn bara bless og sneri sér að næsta verkefni og næstu “grúppíu”.
Eftir sat blaðakonan í mikilli ástarsorg sem enn erfiðara var að komast yfir þegar ekki var hægt að komast hjá því að sjá hann útum allt á veggspjöldum, í blöðum og sjónvarpi.
Auðvitað finnst flestum einhverjar stjörnur aðlaðandi eða heillandi en þegar dagdraumar eru farnir að snúast um frægan ósnertanlegan einstakling er kannski kominn tími á smá sjálfskoðun, einhleypir ættu að líta sér nær, sjá kanski ekki raunverulegan draumaprins eða dís fyrir þann ímyndaða og fólk í sambandi ætti að skoða samband sitt því eðlilegast er fyrir ástfangið fólk að dagdreyma um hvort annað en ekki ókunnugt fjölmiðlafólk eða skemmtikrafta.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.