Flestar konur eiga það til að vera stundum óánægðar með kroppinn sinn. Ég er þar engin undantekning.
Við erum óánægðar og við gagnrýnum það sem við sjáum í speglinum miskunnarlaust; kannski eru brjóstin of lítil, sigin, rassinn of stór eða flatur, mittið ekki nógu grannt, lærin ekki nógu mjó, axlirnar of beinaberar, handleggirnir of þykkir, fæturnir of stuttir, nefið of stórt … og svo framvegis og svo framvegis … Það er í rauninni alveg sama hvað, það sem við höfum er ekki eins og það sem við viljum hafa og það er að okkar flestra mati alveg hreint ömurlegt.
Af hverju gerum við þetta?
Líklegast stafa þessar hugsanir okkar af því hvernig samfélagið elur okkur upp og mótar alveg frá blautu barnsbeini og í gegnum lífið. Könnumst við ekki allar við auglýsingar í ræðu og riti þar sem tíundað er að við stelpur eigum að vera grannar, stinnar og spengilegar, lausar við appelsínuhúð og mjaðmaspik, með óaðfinnanlega nýgreitt hárið og flottustu förðunina dag og nótt, sama hvað klukkan slær? Auglýsingar og miðlar eru stútfullir af óaðfinnanlega gjordjöss konum, baugalausum, bólulausum og hrukkulausum og okkur langar að vera eins.
Það er ekki að undra að skilaboð eins og þessi, sem skella á okkur eins og flóðbylgja kvölds og morgna, leiði til óöryggis og minnimáttarkenndar. Þá er stutt í sjálfsgagnrýni og niðurrif og kroppurinn kennir á því.
Hvað er hægt að gera?
Það sem mér finnst gott að gera þegar ég dett í svona neikvæðar niðurrifshugsanir um útlitið og sjálfa mig er að þakka kroppnum mínum fyrir allt sem hann gerir fyrir mig.
Ef þú spáir aðeins í það er kroppurinn rosalega sterkt fyrirbæri. Sterk maskína sem sér um að koma þér fram úr rúminu, gerir þér kleift að klæða þig, elda fyrir þig mat og borða hann og án hans gætirðu ekki gengið um, hlaupið, hoppað, dansað, hreyft þig eða lifað lífinu!
Kroppurinn er meira að segja svo fær að hann gerir við þig þegar þú meiðist og læknar þig þegar þú veikist.
Allt þetta – og við launum oftar en ekki með óánægju og gagnrýni af því okkur finnst kroppurinn á okkur aldrei nógu fagur.
Þessar neikvæðu hugsanir eru oftar en ekki sjálfvirkar og ósjálfráðar, svo eðilegar og ómeðvitaðar að okkur er farið að finnar þær eiga rétt á sér. Við förum að trúa því sem við segjum okkur sjálfum.
Þetta er lærð hegðun, eitthvað sem við höfum vanið okkur á. Það eru í rauninni góðu fréttirnar, kæru konur! Það er enn von, vegna þess að það sem er hægt að læra, er nefnilega líka hægt að af-læra.
Næst þegar þú stendur sjálfa þig að því að vera að rakka líkamann þinn niður fyrir að standast ekki einhverja brjálaða útlitsstaðla sem samfélagið og þú ert búin að setja honum; stoppaðu aðeins! Snúðu ferlinu við. Hugsaðu um hversu heppin þú ert að vera heilbrigð, með sterkan og fallegan kropp sem ber þig hvert sem þú ferð og gerir þér kleift að gera allt sem þú vilt gera.
Svo skaltu þakka honum fyrir það. Hlúðu að honum eins og hann hlúir að þér.
Við ættum allar að elska kroppana okkar aðeins meira!
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.