Meiri brúnka, meira gel!
Fyrir einhverju síðan birti ég grein um skinkur sem fékk mjög góðar viðtökur.
Því ákvað ég að birta aftur þessa hnakkagrein hérna sem ég skrifaði fyrir margt löngu í tímaritið Orðlaus (2003) en í dag er undirrituð talin sérlegur sérfræðingur um skinku, hnakka og krúttmál (grein um það kemur síðar).
Auðvitað hefur eitthvað breyst frá því greinin var skrifuð. T.d. varð einhverskonar samruni milli metró-mannsins og hnakkans en í megindráttum hefur hnakkinn haldist óbreyttur s.l 30 ár og eftir að Ólafur Ragnar Hannesson mætti til leiks vefst hnakkinn ekki fyrir neinum.
Hér kemur greinin….
Ertu hnakki?
- Leggurðu mikið upp úr því að vera brúnn?
- Áttu kannski ljósabekk? Í það minnsta andlitsljós?
- Á að ganga í þröngu?
- Fer einn þriðji af mánaðarlaununum í GSM reikninginn?
- Finnst þér réttast að skrúfa niður bílrúðuna þegar þú keyrir niður Laugaveginn svo að vegfarendur geti hlustað á uppáhalds tónlistina þína með þér?
- Ertu með litað hár?
- Áttu bólufelara eða aðrar snyrtivörur?
- Var Guð góður þegar hann fann upp gelið?
- Er ofboðslega mikilvægt að vera góð eða góður í rúminu?
- Er mikilvægt að hafa farið í þrísom?
- Færðu þér prótein í morgunmat?
- Finnst þér gaman að djamma?
- Voru amma þín og afi að æfa í World Class, svo mamma og pabbi, og nú þú?
Ef þú svarar flestum af þessum spurningum játandi þá eru ansi miklar líkur á því að þú sért af kynstofni þeim er í dag er kenndur við “hnakka” en áður hefur hann gengið undir ýmsum nöfnum t.a.m “tjokkós”, þar áður “diskófrík”, á undan því “súkkulaðigaurar”.
Þessi menningarhópur getur harla talist til jaðarmenningar þar sem svona fólk kallar sig yfirleitt normal og lítur ekki sjálft svo á að það tilheyri einhverju költi, en um það má þó deila.
Langa langafi hnakkans, John Travolta.
Diskófríkið sem slíkt varð til um leið og diskóið, upp úr 1970, en það náði hápunkti með myndinni Saturday Night Fever þar sem John Travolta kom, sá og sigraði.
Í þeirri mynd má í raun sjá frumgerð diskófríkins/súkkulaðitöffarans… Já, langafa hnakkans -Ungan mann gerir ekki mikið annað en að fara út um helgar, blása á sér hárið og eltast við stelpur. Hann er svarthærður og vel vaxin eins og hnakka ber að vera, með skartgripi og í þröngum fötum, kann að hreyfa sig rétt og leggur mikla áherslu á stílbragð, kynþokka og fas.
Það þarf ekki mikla sagnfræðigáfu til að sjá að þessi atriði hafa haldið sér óbreytt frá 1977.
Klám og diskó, kaffi og sígó
Það sem einkenndi diskó menninguna var taumlaus gleði og kynlífskæti. Kynlíf skipti ógurlega miklu máli enda fóru diskó og (þá ört vaxandi) klámheimurinn nánast hönd í hönd líkt og systkynin brauð og smjör.
Klámfólkið var allt í diskógírnum og diskógírinn gekk líka út á mikið frjálsræði í kynlífi enda var þetta áður en við fengum hræðslukastið við AIDS: Til hvers að vera að hemja sig ef það er ekkert að óttast? Fáum okkur í nefið og girðum niðrum okkur fram á rauðan morgun!
Mekka diskósins á Íslandi var skemmtistaðurinn Hollywood við Ármúla (jei!).
Áður en Hollywood opnaði mættust “diskófríkin” lítillega í Klúbbnum og á Þórscafé en þessir staðir komust aldrei með tærnar þar sem Hollywood hafði pinnahælana. Hollywood gekk meira að segja svo langt að halda fegðurðarsamkeppnir fastagesta þar sem stelpur á svaðalega uppháum sundbolum kepptust um að vinna hinn hávirðulega titil: Ungfrú Hollywood.
Á barnum voru drykkirnir White Russian og Black Russian afar vinsælir og diskógólfið í Hollywood var svona blikkandi ljósagólf eins og Travolta tryllti okkur á í Saturday Night Fever.
Unghnakkar og ellihnakkar
Einhverntíma leið svo Hollywood undir lok eins og allir góðir staðir gera en andinn hélst enn á lofti og stuttu síðar var þetta farið að snúast um hvort maður hlustaði á Duran Duran eða Wham eða eitthvað allt annað. Hnakkarnir tóku vitaskuld Duran Duran fegins hendi og hlustuðu jaft á þá sem Wham, en “úlpurnar/treflarnir/pönkararnir/krúttin” hlustuðu á pönk, Smiths og Cure.
Enginn ljóð takk
Eitt af því ömurlegasta sem hnakki veit er bókmenntafræðinemi. Hnökkum finnast svona lúðar eins og sagnfræðingar og bókmenntafræðinemar vera afgangar og undanrenna og þeir taka ekki þátt í því sem þeir kalla “djúpar” pælingar. Nei. Hnakkinn vill bara fjör. Hopp og hí. Taka svolítið í.
Hnakkinn fílar líka íþróttir, enda stæla þær skrokkinn og styrkja. Svo er um að gera að afla sér góðra tekna því það kostar að vera flottur.
Bókmenntafræði gefur ekkert af sér. Þar af leiðandi er svoleiðis rugl, ásamt margvíslegum listiðkunum, algerlega tilgangslaust í augum tjokkóins.
Byrjendagræjur fyrir verðandi hnakka/tjokkó
- Föt
Allt sem glansar, er þröngt og sýnir líkamann.
Allt sem hægt er að kaupa í Mótor.
Allt sem er á einhvern hátt kynæsandi.
- Smink
Brúnka, brúnka og aftur brúnka.
Brúnku sprey, brúnku krem, airbrush brúnka, ljósabekkjabrúnka.
Krem og rakspíri
- Húsgögn
Amerískur King Size skeiðvöllur (m.ö.o rúmið)
Diskókúla.
Leðursófi.
Samfararóla.
Risastórt sjónvarp.
Heimabíó.
Ísskápur undir blandið.
- Bíll
Sportbíll með spoiler og allskonar aukahlutum.
Bimmi.
Benz….Hvítur, svartur eða sanseraður.
Öööö Range Rover.
- Kvikmyndir
Night at the Roxbury
Saturday night fever
Buttman back to school sería 1-874.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.