Þeir Hugleikur Dagsson og Sigurjónarnir tveir, Kjartansson og Sigurðsson (Sjón) hafa stofnað cult og klassík hópinn Svarta sunnudaga, sem mun standa fyrir vikulegum kvikmyndasýningum í Bíó Paradís á sunnudagskvöldum í vetur.
Fyrir þeim félögum vakir að auðga bíómenningu borgarinnar og njóta lífsgæðanna sem felast í því að klassískar cult myndir séu sýndar í reykvískum bíósal a.m.k. einu sinni í viku.
Eftir mikla rekistefnu ákváðu þeir þremenningar að sunnudagskvöld væru bestu kvöldin fyrir svona nokkuð, enda hafa sunnudagskvöld fest sig í sessi í bíómenningu okkar sem aðal-bíókvöldin. Auk þess hefði verið kjánalegt að vera með sýningar t.d. á þriðjudögum undir nafninu Svartir sunnudagar.
Fyrsta sýningin frá Svörtum sunnudögum verður haldin nú um Hrekkjavöku helgina, sunnudagskvöldið 4. nóvember kl. 20. Myndin sem verður fyrir valinu þetta fyrsta kvöld er Dawn of the Dead, frá 1978 eftir George A. Romero. Hryllingur um agalega uppvakninga sem gera allt vitlaust í kringum sig. Síðan verður farið á fullan skrið með sýningar í vetur.
Aðrar myndir sem áætlað er að sýna næstu vikurnar eru m.a. One Million Years B.C., Big Trouble in Little China, Black sunday ofl. Svartir sunnudagar halda svo áfram í viku hverri fram á vor og jafnvel lengur.
Skemmtilegt fyrir bíónörd og aðra sem hafa gaman af því óvenjulega í lífinu.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=PpuNE1cX03c[/youtube]
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.