Er planið að fara út í kvöld eða á morgun og langar þig að vera extra sæt?
Hér er lítil uppskrift að góðu útliti. Hún virðist kannski flókin í fyrstu en trúðu mér, þú tekur þetta allt á svona tveimur tímum. Vertu bara viss um í hvaða föt þú ætlar að fara og ef þú efast, mundu þá að litli svarti kjóllinn með helling af skarti og flottu naglalakki gengur alltaf.
En hér kemur þetta … allt í réttri röð:
- Ef þú ert ekki úthvíld núna skaltu leggjast útaf og hvíla þig svolítið. Þó ekki sé nema í 20 mínútur. Fallegt útlit fylgir því að vera útsofin og afslöppuð. Stundum getur verið gott að hlusta bara á slökunartónlist í smá stund ef þú getur ekki sofnað. Andaðu djúpt og sjáðu eitthvað fallegt fyrir þér.
- Ef þú hefur tíma skaltu skella þér í stuttan göngutúr eða út að hjóla og fáðu svolítið ferskt loft. Hlustaðu á skemmtilega tónlist á meðan og komdu þér í stuð.
- Þegar heim er komið skaltu bleyta hárið og láta næringu eða djúpnæringu í það. Leyfðu næringunni að bíða og vinna sína vinnu. Ef þú hefur nægan tíma skaltu gera tennurnar hvítari með viðeigandi efnum sem hægt er að kaupa í næsta apóteki. Á meðan þú ert með næringuna í hárinu og hvíttar tennurnar er gott að hlusta á tónlist og snyrta neglurnar. Pússa þær og “böffera”.
- Gríptu hamphanska og þurrburstaðu húðina hátt og lágt. Stökktu svo undir sturtuna og notaðu kornaskrúbb ef þú átt hann. Mundu að nota líka hamphanska og skrúbb á fæturna. Þeim líður svo vel af því.
- Skolaðu hárið og þurrkaðu með handklæði. Settu blástursvökva og krem og láttu aðeins þorna inn. Mæli með Root-Full frá Redken og Small Talk frá Tigi. Gefur hárinu góða fyllingu og gerir það fallegt.
- Berðu á þig Body-Lotion og settu rakamaska á andlitið.
- Meðan rakamaskinn gengur inn í húðina er gott að þurrka hárið með hárblásaranum. Hafðu það aðeins 95% þurrt ef þú ætlar að nota krullubursta eða sléttujárn. Ég mæli með því og/eða gömlu góðu karmen rúllunum.
- Berðu gott hárkrem í endana og spreyjaðu svo yfir með góðu og vel-lyktandi hárlakki sem er ekki of stíft.
- Þurrkaðu núna rakamaskann af andlitinu með bómul og berðu á þig brúnkukrem. Þú ræður hvort þú berð á allan líkamann eða bara á andlit og bringu. Fer eftir því hverju þú ætlar að klæðast. Ég mæli með t.d. kremum frá Helenu Rubinstein, Guerlain, Dove og Clarins. Allt frábærar vörur sem óhætt er að mæla með. Í raun eru flest stóru merkin farin að framleiða mjög góð brúnkukrem sem óhætt er að treysta. Settu svolítið í bómul og berðu þannig á handabökin í lokin, eftir að þú hefur hreinsað lófana og á milli fingranna.
- Þá er það förðunin … ef þú ætlar að fara í dramatískan og áberandi fatnað er flott að vera með náttúrulega förðun. Ef þú ætlar að mála þig mikið um augun er betra að nota ekki sterkan varalit og ef þú ætlar að vera með sterkan varalit er gott að mála sig natural um augun eða vera bara með flottan, svartan eyeliner en slíkt fer konum á öllum aldri vel.
Svo er bara að draga fram skartið, vera ekki feimin við að vera “of fín” og fara svo út að njóta lífsins – sæt sem aldrei fyrr!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.