Flest erum við að flýta okkur meira eða minna yfir daginn. Við þurfum að drífa okkur í fötin, hendast úr sturtu og gera okkur og börnin okkar klár fyrir daginn.
Sumum konum finnst fara ógnar tími í að líta vel út en þetta má auðveldlega einfalda. Hér er uppskrift að hraðförðun.
Förðun á 5 mínútum
1. Þurrkaðu andlitið varlega þegar þú kemur úr sturtunni. Ekki nudda það, þó þú sért mjög syfjuð.
2. Berðu á þig gott rakakrem, líka niður háls og yfir bringuna. Þurrkaðu því sem er ofaukið af með tissjú.
3. Berðu farðann (meikið) á með fingrunum. Byrjaðu á hökunni og berðu upp eftir andlitinu. Við viljum vinna á móti þyngdarlögmálinu – ekki með því!
4. Þetta gera tvær mínútur. Þurrkaðu þér um hendurnar eða þvoðu. Nú skaltu móta augabrúnirnar með blýanti og greiddu þær í fallegt form. Ekki lita þær með blýantinum. Bara móta. Ef þú átt augabrúnavax er gott að nota það til að halda þeim í skefjum. Gefðu þér augnablik til að plokka burtu stök hár.
5. Næst er það “eyeliner”. Byrjaðu í augnkrók á efra augnloki og dragðu línu eftir augnhárarótinni að enda. Settu svo línu undir augað, fyrir neðan augnhárarót , ekki inn í augað. Mildaðu svo línuna með augnskugga og athugaðu að mála þig ekki of dökka þar sem við erum að tala um dagförðun.
6. Þá er það hinn ofur mikilvægi maskari. Gefðu þér um hálfa mínútu á hvort auga og um 15 sekúndur til að lagfæra ef eitthvað fór útfyrir.
7. Ljúktu förðuninni með glossi og svolitlu púðri eða örlitlu sólarpúðri á kinnarnar. En bara örlitlu.
Stökktu nú af stað og taktu daginn með trompi!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.