Það er allt öðruvísi að ‘deita’ þegar þú ert orðin 30+ en á tvítugsaldrinum og eitt af því sem er frábrugðið er að flestir, ef ekki allir, menn sem reka á fjörur þínar eru frístundapabbar, helgarpabbar eða bara einstæðir pabbar.
Það fylgja þessu allskonar kostir og gallar en helsti kosturinn er kannski sá að hann er að öllum líkindum búinn að missa áhugann á því að fara út að djamma eða hanga yfir tölvuleikjum fram yfir miðnætti öll kvöld. Við vonumst jú til að menn hætti því eftir 25 ára aldurinn.
Svo er margt fleira í þessu. Börnin hans eru og verða alltaf það mikilvægasta í lífi hans þó það sé vissulega mikilvægt að þið ræktið ykkar eigið samband. Svo þarftu að muna að þú ert ekki að deita bara einn mann, heldur fjölskyldu.
Hér eru 10 heilræði frá konum sem hafa verið með einstæðum pöbbum eða eru það núna.
- Hafðu á hreinu að hann sé örugglega skilinn. Ok, þetta er kannski pínu döh en treystu okkur. Tékkaðu og tékkaðu svo aftur.
- Mundu að þú ert að deita fjölskyldu: Eins og áður segir, krakkarnir hans eru í fyrsta sæti. Þú verður að sætta þig við það, nema “krakkarnir” séu 20-40 ára.
- Ekki reyna að verða mamma barnanna hans á fjórða deiti: Þau eiga mömmu. Líttu frekar á þig sem frænku og leyfðu því að þróast þaðan. Láttu krakkana ráða ferðinni og ekki biðja þau um að kalla þig neitt sérstakt. Láttu þau ráða þessu.
- Sættu þig við að hann þarf stundum að tala við fyrrverandi: Þetta er barnanna vegna og eins erfitt og leiðinlegt og það getur verið þá skaltu gera þitt besta til að forðast afbrýðissemi og gremju út af því hversu oft eða lengi hann þarf að tala við hana (svo lengi sem þetta er ekki eitthvað alveg úr böndunum og bara hún sem er alltaf að hringja).
- Hlustaðu á hann: Kannski hefur hann þörf fyrir að tjá sig um meðlögin eða rifrildi við exið. Það er mikilvægt að þú sért til staðar fyrir hann.
- Gefðu honum rými: Það er frábært að þig langi að búa til nýja fjölskyldu fyrir hann en gefðu honum samt tíma til að rækta sambandið sem hann á við börnin sín. Krakkar geta auðveldlega orðið súrir út í nýjan maka en ef þú gefur þeim tíma til að vera með pabba sínum þá fá þau sína athygli og eru líklegri til að verða sátt.
- Skildu að þú kemst eflaust seint í fyrsta sæti: Ekki detta í fórnarlambið, mundu alltaf að tala um þarfir þínar en skildu líka að hann á börn og þau þurfa á pabba sínum að halda – eflaust meira en þú þarft á kærasta að halda. Annars á aldrei að keppast um sæti í þessu tilfelli enda um gerólík sambönd að ræða.
- Vertu tilbúin fyrir þetta: Ef þú átt erfitt með að sætta þig við að hann setji stundum börnin framfyrir þig þá ertu kannski ekki tilbúin að vera í sambandi með manni sem á börn eða unglinga? Þú átt heldur ekki að gera það ef þú getur það ekki enda er slíkt ekki sanngjarnt gagnvart neinum.
- Taktu þinn tíma: Það er auðvelt að hlamma sér inn í nýja fjölskyldu en mundu samt að halda í sjálfa þig (sérstaklega ef maðurinn sem þú ert að hitta hefur misst konuna sína, s.s. er ekkill). Farðu að hlaupa, í bíó með vinkonum, haltu smá fjarlægð og leyfðu hlutunum að gerast og koma af sjálfu sér.
- Njóttu þín: Njóttu þess að vera ekki mamma barnanna hans með því að vera bara svolítið öðruvísi. Hafðu gaman af þeim á annan hátt en mamma myndi gera. Kakkar geta verið ótrúlega skemmtilegir ef þú sýnir þeim athygli og að þú njótir samvista við þau.
Gangi þér vel vinkona og mundu að það eru ótal fiskar í sjónum ef þetta gengur ekki upp!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.