Það fylgja því bæði kostar og gallar að vera einhleyp og sumum hentar hið síðarnefnda afskaplega vel. Gallarnir eru aðallega samfélagslegir því tilfinningalega getur verið frábært að vera ein/einn og þurfa ekki að hafa áhyggjur af öðrum en sjálfri eða sjálfum sér.
Þó árið sé ekki lengur 1950, og 60% hjónabanda endi með skilnaði, þá gerir samfélagið okkar samt alltaf ráð fyrir því að við séum í sambúð. Þetta viðmið er svo ýkt að um daginn datt mér hreinlega í hug að sækja um að fá að vera með vagn í gleðigöngunni svona til að vekja athygli á því hvernig einhleypum er ýtt til hliðar. Auðvitað veit ég að það yrði líklega ekki samþykkt af foringjum göngunnar en þó veit ég að margir einhleypir upplifa ákveðna félagslega útskúfun frá þeim sem tilheyra hinu svokallaða hetrónormi í samfélaginu.
Um hvað ertu eiginlega að tala?
Jú sjáðu til. Allir sem hafa verið einhleypir í lengri eða skemmri tíma kannast við eitthvað af þessu:
- Þér er sjaldnar boðið í matarboð
- Það verður erfitt að finna félagsskap í ferðalög
- Þú neyðist til að mæta ein/einn á árshátíð vinnustaðarins
- Þú verður að mæta ein/einn í vinnustaðapartý
- Þú ert sett/ur á „afgangaborðið“ í brúðkaupsveislum
- Þú ferð nánast bara í stelpu/strákapartý
- Jólin verða leiðindatími (nema þú feisir tónlistina og girðir í brók)
- Gifta fólkið er alltaf að spyrja út í ástarlíf þitt, hvort það „sé eitthvað í gangi“
- Karlar segjast hissa á því að svona „myndarleg kona eigi engan mann“
- Sumir verða tortryggnir þegar þú spjallar við maka vina þinna í partýum (á bæði við um karla og konur)
- Suma grunar að það sé kannski eitthvað meira að andlegu hliðinni hjá þér heldur en hjá þeim sem eru í sambúð
- Flestir álykta að þú hljótir þá að vera desperat
- Mökum stendur ógn af þér: „Hvað er hún alltaf að draga þig út á djammið!“
Ef þú hefur verið einhleyp/ur í einhvern tíma og kannast ekki við að hafa upplifað neitt af þessu þá bið ég þig vinsamlegast um að senda mér skilaboð og útskýra fyrir mér hvað þú ert búin að vera að gera rétt.
Baráttumál fyrir Félag einhleypra
Ef ég myndi stofna félag og gæti sett eitt mál í forgang fyrir réttindabaráttu einhleypra þá myndi ég krefjast þess af fyrirtækinu sem ég starfaði hjá að ég fengi að taka vinkonu með á þorrablótið, árshátíðina, vinnustaðapartýið. Það er bókstaflega FÁRÁNLEGT að manneskja sem er búin að borga samviskusamlega í starfsmannasjóð eins og allir aðrir sem vinna hjá fyrirtækinu fái ekki að vin eða vinkonu sína með í þessi partý á okkar ágætu 21.öld. Að reglan verði að vera sú að fólk stundi mök, eða sé í sambúð, til að mega mæta saman á ákveðnar skemmtanir er alveg út í hött. Það hljóta allir að sjá.
Samruni gengur ekki alltaf upp
Íhugaðu líka ástæður þess að við sambúðarleysingjarnir veljum þann kostinn til lengri eða skemmri tíma, – nú eða bara út ævina. Það er fínt að eiga kærasta eða „vin“ eins og sumar kalla það, en að fara í sambúðarpakkann er eitthvað sem fólk þarf að hugsa veeeel og vandlega áður en það hendir sér af stað. Að búa með annari manneskju er nebblega ekki eins og að drekka vatn og þegar það eru komin börn úr fyrri samböndum inn í myndina þá verður þetta síður en svo einfalt og það vitið þið.
Fjölskyldulíf okkar flestra er flókið, svo flókið að það borgar sig meira að segja að fá ráðgjöf ef fólk ætlar sér að sameina tvö heimili með börnum og buru. Deitlífið með kokteilum og keleríi er eitt en sambúðin verður fljótlega eins og fyrirtæki og þá er eins gott að eigendurnir séu mjög samstíga. Athugið líka að af öllum fyrirtækjum sem eru sett á laggirnar fara um 80% á hausinn og tölurnar fyrir establiseruð samrunafyrirtæki eru hærri.
Taka því rólega bara
Ég segi ekki að ég sé mjöööög þjökuð eða bitur yfir þessum furðulega, gamaldags kúltúr enda orðin vön sóló lífinu. Hef búið í sætu íbúðinni minni með dóttur minni frá því hún var hálfs árs og nú er hún orðin fimmtán. (Reyndar prófaði ég eitt ár í sambúð sem reyndist leiðinleg og erfið svo ég flutti til baka (það hvarflaði aldrei að mér að selja).
Ekki að ég sé eitthvað á því að fólk eigi alls ekki að stofna til sambúðar eftir að hafa reynt það einu sinni eða tvisvar… ég segi bara að maður eigi að fara sér hægt enda miklu erfiðara að koma sér í sambönd en úr þeim, – og hvað þá þegar þið eruð farin að búa saman! Og þið þarna pör – að þessu sögðu… í guðanna bænum ekki skilja okkur einhleypu vini ykkar útundan á spilakvöldum og í matarboðum! Þetta þarf ekki alltaf að vera eins og í Örkinni hans Nóa eins og Carrie Bradshaw í Sex and the City sagði. Setjið miða á ísskápinn „Muna að bjóða,“ (só end só). Ekki reyna að koma okkur á deit ef við biðjum ekki um það. Takið pásu frá makanum og komið með til Kanarí. Þið þurfið ekki að sitja svona föst í hetrónorminu. Það er meira gaman þegar fleiri koma saman.
„Nei. Ég er að spá í að fá mér hund“
Hér eru nokkur ráð sem hafa reynst vel þegar gifta fólkið (sem aldrei segir múkk um sín mál) snýr sér að þér og byrjar að hnýsast. Vonandi ætti þetta að fá þau til að sjarabb…
Hvað er að frétta? Ertu byrjuð að hitta einhvern?
„Nei ég er er svo kvíðin, afbrýðissöm og þunglynd. Það meikar enginn að vera með mér.“
„Nei, ég er allt of sterk fyrir íslenska karlmenn.“
„Nei, ég er að sofa hjá bæði körlum og konum. Bilað að gera. Mæli með því!“
„Nei, og hvað? Hætta að stunda kynlíf?“
„Nei ég er að spá í að fá mér hund.“
Ertu eitthvað að sofa hjá?
„Ertu að meina hvort ég sé til í sjortara? Já við náum kannski fimm mínútum. DJÓK“
„Nei, ég er víst alveg SKELFILEG í rúminu. Þetta er hrikalegt.“
„Já vá það er allt í gangi! Hvernig er annars kynlífið hjá ykkur eftir að þið áttuð stelpuna? Er þetta ekki ægilega erfitt?“
„Heyrðu ég er alveg kynköld. Steindauð. Hef alltaf verið það – kvarta ekki.“
„Bíddu. Af hverju varst þú að tala við mömmu?“
Góðar stundir,
MHG
PS Ef þú ert einhleyp/ur elsku besti lesandi, nú eða ert að tengja, viltu þá plís deila þessari færslu? (Kannski á yfirmann þinn) við þurfum vitundarvakningu!
#vitundarvakning #fyrireinhleypafólkið
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.