Sumar ykkar vita eflaust að ég hef í tæpt ár verið að æfa ofboðslega erfiða en skemmtilega íþrótt sem kallast Pole fitness og hugsanlega hafið þið í kjölfarið íhugað að prófa.
Þær ykkar sem vissuð það ekki geta lesið nokkrar góðar ástæður fyrir því af hverju mér finnst að allar konur eigi að prófa pole fitness! Það er mín skoðun, og hún styrkist bara meira og meira eftir því sem tíminn líður og ég æfi lengur.
Nú þegar ég er búin að fjalla um af hverju þú ættir að æfa pole fitness finnst mér tilvalið að ég fjalli um hvar þú getur æft pole fitness!
Ég veit að pole fitness er mjög mikið út fyrir kassann fyrir flesta (það var það klárlega fyrir mig, sem æfði fótbolta í mörg ár og var allt annað en stelpuleg stelpa í æsku, hataði til dæmis bleikan og kjóla og hafði nú ekki dottið í hug að reyna að dansa annarsstaðar en ein með sjálfri mér fyrir framan spegilinn).
Ég hafði sjálf hugsað um pole fitness í nokkur ár áður en ég dreif mig loksins af stað. Mér fannst íþróttin rosalega heillandi en ég var handviss um það að litla Ísland hefði ekki almennilegt pole fitness stúdíó að bjóða mér, með hressum kennurum sem kunna sitt fag algjörlega. Ég var svo viss um að þessi íþrótt væri ekki komin fyllilega til okkar einangraða lands og þessvegna hlyti nú að vera að ef það væru pole fitness stúdíó á Íslandi (sem ég vissi ekki að væru til, enda hafði ég ekki prófað að leita) þá væru þau líklegast bara eitthvað amatör.
Umturnaðir fordómar
Þessi asnalega og fordómafulla skoðun mín átti eftir að koma til með að umturnast algjörlega. Það byrjaði á því að kærastinn minn fór að vinna með rosalega hressri stelpu sem heitir Monika og sagði hún honum að hún hefði nýlega opnað pole fitness stúdíó ásamt vinkonum sínum Evu Rut og Önnu Lóu.
Hann sagði mér að auðvitað ætti ég bara að skella mér í fyrstu tímana í glænýja stúdíóinu þeirra, en ég var nú samt ekki alveg sannfærð (eða hugrekkið of lítið), svo ég fór ekki strax í tíma þegar stúdíóið opnaði… í staðinn fór ég bara að fylgjast með með því á facebook.
Allt sem ég sá á facebook póstunum var jákvætt, spennandi og töff. Reglulega birtust á Facebook síðunni þeirra þemamyndir með öllum hópnum (til dæmis um jól, páska eða á öskudaginn) þar sem stelpurnar sem æfa þar brugðu á leik, settu til dæmis á sig jólahúfur eða fóru í grímubúninga og tóku skemmtilegar myndir. Aðrar myndir og vídjó frá æfingum sýndu reglulega hvað verið var að læra og fullkomna þá stundina, það leit út fyrir að það væri mikil stemming og hópurinn virtist samheldinn og hress.
Í hjarta Reykjavíkur
Stúdíóið heitir því skemmtilega nafni Eríal Pole og er staðsett í hjarta Reykjavíkurborgar, eða á Rauðarárstíg 31 (bakhúsi).
Aðstaða Eríal er falleg og snyrtileg, þar eru hvítmálaðir veggir með túrkísbláu þema, mikil lofthæð og rýmið opið, dökkbrún parketgólf, háar súlur og nóg pláss.
Þjálfararnir kunna svo sannarlega sitt fag, en þær eru sprenglærðir og reynslumiklir þjálfarar sem hafa auk þess sótt fjöldann allan af námskeiðum meðal annars hjá frægasta pole fitness íþróttafólki heims svo ekki sé talað um að hluti þeirra hefur einnig keppt á stórmótum bæði í Evrópu sem og á alheimsvísu.
Þú gætir ekki lent í öruggari höndum.
Ég var búin að dást að því sem var gert í Eríal Pole í heilt ár áður en ég ákvað að drífa mig í byrjun árs 2014 á námskeið fyrir byrjendur, eða level 1.
Fyrsti tíminn, ég lifði hann af
Það var stressandi að mæta í fyrsta sinn, en á móti manni tók brosandi þjálfari og bjart, opið rými. Þegar tíminn byrjaði hvarf allt stress.
Það var allt bara svo rosalega afslappað, jákvætt og skemmtilegt. Ég dáðist að því hvernig þjálfarinn sveif léttum sporum um gólfið og mig langaði til að vera eins… var það að sjálfsögðu ekki, ekki frekar en aðrir byrjendur, en það var líka bara allt í lagi. Enginn dæmdi mig fyrir að vera klunnaleg, enginn hló að mér fyrir að vera ekki góð, heldur einkenndist umhverfið af stuðningi og jákvæðni þar sem bæði þjálfari og stelpur innan hópsins hvöttu hverjar aðrar áfram.
Ég er svo ánægð að hafa loksins drifið mig af stað, ég er ótrúlega ánægð að hafa valið Eríal pole og ég er þakklát fyrir allan stuðninginn og hvatninguna sem ég hef fengið frá þeim (og fæ enn, þrátt fyrir að vera flutt af landi brott!).
Eitt frábært dæmi sem ég tek óspart er að áður en ég byrjaði í Eríal Pole hefði ég skellihlegið af tilhugsuninni um mig að fara í splitt, það var fáránleg pæling og eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei á ævinni prófa.
Það var ekki fyrr en við byrjuðum að æfa splitt á æfingum í Eríal sem tilhugsunin fór að verða bærilegri, ég byrjaði að trúa því að ég gæti kannski bara gert það…. og ég fór af alvöru að reyna að ná þessu markmiði. Nú, nokkrum mánuðum síðar get ég farið í splitt! Það er nákvæmlega þetta sem gerist í Eríal Pole, þjálfarinn veit meira um hvað þú getur en þú sjálf og með hennar hjálp uppgötvarðu að þú ert miklu sterkari en þú hélst þú værir og ert fær um alls konar hluti sem þú hafðir enga hugmynd um áður.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=9ZKqzV5f7q0&list=UUCgcYBsI2-v_pjSGHyE2wDg[/youtube]
Stelpurnar í Eríal bjóða upp á alls konar rosalega skemmtilega og fjölbreytta tíma.
Þar er að finna pole fitness þjálfun fyrir öll erfiðleikastig auk þess sem boðið er upp á Lyra, þrektíma, foam flex og pole play.
Þegar þú velur pole fitness námskeið velurðu þinn æfingatíma tvisvar sinnum í viku og býðst þér þá einnig að sækja aukalega þrektíma, flex (teygjuæfingar), danstíma og opna tíma þér að kostnaðarlausu.
Það er því klárlega nóg af hreyfingu að fá fyrir peninginn, ekki nóg með það heldur er hreyfingin líka ótrúlega skemmtileg, töff og öðruvísi, með æðislegum þjálfurum og í frábærum hópi!
Endilega kíktu á heimasíðuna þeirra til að fá nánari upplýsingar um stundatöflu og verðskrá og kíktu á facebook síðuna þeirra í leiðinni!
Ef þú ert eins og ég var og hefur verið að íhuga að prófa pole fitness, dans eða lyra tíma, leggðu frá þér allt á stundinni og skráðu þig á námskeið! Þú munt ekki sjá eftir því. Ef þú hefur ekki verið að íhuga það, leggðu samt frá þér allt og skráðu þig á stundinni!
Sveindís Þórhallsdóttir útskrifaðist í vor með BS gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands en býr nú í fallegum bæ á Finnlandi þar sem hún leggur stund á mastersnám í íþrótta- og æfingasálfræði. Sveindís er jafnframt einkaþjálfari, heldur úti fjarþjálfun á vefsíðu sinni og hefur mikinn áhuga á hvers kyns hreyfingu og heilbrigði.
Pole fitness á hug hennar allan og fríkvöldunum er oftar en ekki varið í að teygja fyrir framan sjónvarpið. Hún á eitt stykki frábæran kærasta og dreymir um að bæta kisu á heimilið.