Rauða flauelskakan, Red velvet, hefur öðlast endurnýjun lífdaga en kakan varð heimsfræg og ofur vinsæl á fyrri hluta síðustu aldar og er þekktasta útgáfan af henni jafnan kennd við hið sögufræga hótel Waldorf Astoria í New York.
Rauður matarlitur er notaður í deigið til að ná fram djúprauðum lit en einnig eru til tilbrigði við kökuna þar sem rauðrófusafi er notaður í sama tilgangi. Venjulega er rjómaostskrem notað á rauðu flauelskökuna en á mínu heimili slær hún enn betur í gegn með sykurpúðakreminu eins og er á meðfylgjandi mynd.
- 100 g smjör
- 300 g sykur
- 2 egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 250 g hveiti
- 3 msk. kakó
- 1 tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 3 dl súrmjólk
- 1 msk. hvítvínsedik
- 4 msk. rauður matarlitur
Hitið ofninn í 180 gráður. Hrærið vel saman smjör og sykur þar til ljóst og létt. Bætið á eggunum saman við, einu í einu og svo vanilludropum. Sigtið síðan hveiti, kakódufti og salti í skálina og hrærið saman. Hrærið súrmjólk, matarlit og loks hvítvínsediki út í. Skiptið deiginu í tvö smurð tertuform og bakið í 30-35 mínútur eða þar til prjónn, sem stungið er í kökuna, kemur út hreinn.
Sykurpúðakrem
- 2 dl sykur
- 1 dl síróp
- ¼ b vatn
- 1/8 tsk. salt
- 2 eggjahvítur
- ¼ tsk. vínsteinn (cream of tartar)
- 1 ½ tsk. vanilludropar eða vanilluextract
Hrærið sykur, síróp og vatn saman í potti og látið sjóða í nokkrar mínútur og hrærið í á meðan. Hrærið eggjahvíturnar og cream of tartar í hrærivél á miðlungshraða þar til stífnar. Blandið síðan heitri sírópsblöndunni varlega, í mjórri bunu, saman við eggjahvíturnar. Þegar öll sírópsblandan hefur blandast eggjahvítunum, aukið þá hraðann á hrærivélinni, og hrærið vel í nokkrar mínútur. Í lokin er vanilludropunum hrært saman við. Smyrjið kreminu á kökubotnana og passið að þeir séu orðnir alveg kaldir.
Rjómaostskrem
Rjómaostskrem eru algeng á kökur og tertur ýmis konar en af þeim eru þó til margar útgáfur. Eins og nafnið gefur til kynna er uppistaðan í þeim rjómaostur en misjafnt er hvort notað sé einnig í það smjör eða ekki. Hér er uppskrift að ljúffengu rjómaostskremi með smjöri sem fer vel með rauðu flauelskökunni:
- 250 g rjómaostur
- 1 dl smjör, mjúkt
- 1 dl flórsykur
- 1 tsk. vanilludropar
- salt á hnífsoddi
Hrærið rjómaostinn vel og bætið síðan smjörinu saman við og hrærið uns hefur jafnast vel saman. Sigtið þá flórsykur yfir skálina, hrærið á miðlungshraða og bætið vanilludropum og salti saman við. Hrærið stutta stund eða rétt þar til hráefnið hefur blandast og kremið orðið slétt og fínt.
Ráð: Til að rjómaostskrem með smjöri heppnist vel, verði slétt og mjúkt er mikilvægt að huga vel að hitastigi rjómaostsins og smjörsins, sérstaklega þess síðarnefnda. Hvort tveggja ætti að vera við stofuhita, en smjörið má alls ekki verða of lint. Best er að taka smjörið úr kæli um tveimur tímum áður en á að nota það. Verði það of lint er mun meiri hætta en ella á að vatn og fita úr smjörinu skilji sig og kremið misheppnist.
Ath: Skrautið ofan á kökuna er keypt erlendis en tilvalið er fyrir þá sem hafa gaman af föndri að klippa út myndir og flögg, líma við falleg sogrör og tannstöngla og útbúa svona fallegt skraut.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.