Ég læt mig málefni heimsins varða, sterk réttlætiskennd fær mig til að vilja berjast fyrir réttindum allra sem minna mega sín og óréttlæti heimsins, stríðsmyndir og sveltandi börn gera mig sorgmædda, spilltir pólitíkusar og ljúgandi illmenni brjálaða og svo má lengi telja, en eitt er þó sem stendur uppúr, eins grunnhyggið sem það kann að hljóma þá fer mesta orka mín, reiði og pirringur í hið eilífa stríð við heimilisverkin og umræður um það hver á að gera hvað og afhverju hver hefur ekki gert það sem hann/hún átti að gera.
Afhverju get ég ekki verið eins og Mary Poppins og fundist allt skemmtilegt og létt? Á hverju er hún annars? “A spoonful of sugar makes the medicine go down” Kannski er hún bara svona hress því hún sér um heimili og börn á daginn og fer svo heim til sín á kvöldin og hefur þá tíma út af fyrir sig?
Að koma heim eftir langan vinnudag hlaðin Bónuspokum og hrasa yfir skó og skólatöskur í ganginum kveikir glæðuna og hugsanirnar fara af stað, hvað bíður mín í eldhúsinu, staflinn af óhreinu leirtaui? Brauðmylsnur og harðnandi ostur sem gleymst hefur að setja í ísskáp? Skítugir sokkar og föt á svefnherbergisgólfum? Rúm og sófar í óreiðu, þvottastaflinn óhreyfður og þvottakarfan full? Það ólgar inni í mér reiðin, hún bullar og sýður og á endanum spring ég eins og eldgos:
„Hver, hvað, afhverju er ekki búið að, eins og skot, hvernig dettur ykkur í hug, eruði að grínast í mér, ansk… helv… þvottur, uppvask, leikföng, AAAAAArrrrrgggg!!!“
Jújú. Hekla gýs vegna óreiðunnar á heimilinu og kennir öllum heimilismönnum um sóðaskap og slugs eins og skessa ælir hún út úr sér nöldrinu og skömmunum.
Þegar ég sá bókina hans Hallgríms Helgasonar „10 ráð til að hætta drepa fólk og byrja að vaska upp“ þá höfðaði titillinn sérstaklega til mín, nema mér fannst hann öfugsnúinn, það að vaska upp fær mig til að vilja myrða menn!
Lausnir?
1. Æðruleysi og jóga, ert’iggi að djóka?
Ég hef reynt að taka æðruleysið á þetta, stundað jóga, farið í 12 spora samtök og farið með æðruleysisbænina þegar ég er að bugast úr sjálfsvorkun yfir óskúruðum gólfum. Ég hef meira segja reynt að láta þau vera og beðið þolinmóð eftir að aðrir sjái loks skítinn sem ég sé og fá kast, taka upp klósettburstann, skrúbbinn, tuskuna.. en það gerist ekki, það er nefnilega öllum heimilismönnum nákvæmlega sama þó það sé ekki þrifið!
2.Barnasálfræðin og gremjan
…og 12 spora ruglið um að maður „eigi ekki að gera það fyrir aðra sem þeir geta gert sjálfir“ er ekki að virka, eftir sit ég samt sem áður með þrefalt meiri skít til að þrífa þegar ég loks spring úr gremju og hrauna yfir allt og alla.
3.Umbun, sem virkar ekki
Ég hef reynt umbunar-aðferðina, sem virðist spennandi í fyrstu hjá krökkunum en virkar auðvitað ekki á eiginmanninn og því hef ég einnig reynt að setja upp plan, hver á að gera hvað, hvaða dag en það er enginn sem fer eftir því nema ég sjálf.
4. Heimilishjálp með doktorspróf
Ég sá loks þann kost vænstan að kaupa mér heimilishjálp, og fór að spyrjast fyrir. Jú, það var vinkona sem gat gefið mér númerið hjá ofboðslega duglegri konu frá austantjalds-landi sem er geimvísindamaður eða kjarnorkuverkfræðingur eða eitthvað þvílíkt að mennt en fær ekki vinnu á Íslandi nema læra málið svo hún lifir af því að þrífa hús hjá lötum húsmæðrum eins og mér á meðan hún klárar íslenskunám. NEI nú var mér nóg boðið!, réttlætiskenndin margumtalaða gat engan veginn sætt sig við að svona væri komið fyrir greyið konunni. Ég gæti aldrei látið háskólamenntaða konu með Phd. skrúbba hjá mér skítugt klósettið og taka táfýlusokka upp úr gólfinu. Ég myndi alltaf vera búin að þrífa, skella í bananabrauð og hella upp á kaffi áður en hún kæmi í heimsókn.
Eftir sit ég með sárt ennið að Mary Poppins með töfraþuluna sé ekki til, bara skessan inni í mér sem þeytist eldspúandi um íbúðina og þrífur í reiðikasti og hreytir ónotum í Leppalúða og jólasveinana, það er engin töfraþula sem virkar á hana en kanski valíum, er það lausnin?
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.