Það er alltaf pínulítil kúnst að mála sig svo smart sé og tekið verði eftir þér fyrir lekkerheit en ekki þetta: „Hún var að nýta allar snyrtivörurnar sem hún átti áður en þær mygluðu og runnu út á dagsetningunni.“
Dæmin sýna þetta ótvírætt á djamminu hér í bænum, konur virðast upp til hópa alltof mikið málaðar.
Franskar konur eru hinsvegar með þetta nokkuð á hreinu. Gullna reglan hjá þeim er að vera sem náttúrulegastar. Það er til dæmis mjög fallegt að spila saman andstæðum og þetta nota ég óspart sjálf.
Þegar ég fer eitthvert fínt út og í sparidressið reyni ég að hafa förðun í lágmarki. Fínu fötin sjálf ættu að vera nægilegur glamúr.
Aftur á móti er það hin áttin þegar ég er í einföldum fatnaði; gallabuxum og stuttermabol. Þá finnst mér smart að bera mikinn farða og poppa upp með sterkum varalit, fötin þola það líka þar sem þau eru látlaus. Þá er allt í lagi að fara “yfir strikið”, mála sig mikið.
Þessi pæling sést vel á síðum tískublaðanna: Mikið meik-up með látlausum fötum og lítið með fínu fötunum. Fyrir vikið virka fyrirsæturnar alltaf bæði töff, kvenlegar og stelpulegar.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.