Raundæmi: Skólabróðir minn fellur í áfanga. Hann segir mér að ástæða þess sé að hann og hans hópur sem samanstóð bara af strákum hafi fengið 0 á stóru skilaverkefni vegna þess að þeir hefðu klikkað á því að hafa stelpu í hópnum.
Ég varð auðvitað hneyksluð en honum fannst ekkert athugavert við þetta og útskýrði nánar að ef þeir hefðu haft stelpu með í för þá hefði hún líklegast haldið utan um hópastarfið, útdeilt verkefnum, skipulagt tímann og séð til þess að verkefninu hefði verið skilað á réttum tíma.
Staðreynd: Á Íslandi stunda mun fleiri konur en karlar háskólanám. Í hlutfalli við karla eru þó mun færri konur í stjórnunarstöðum. Þetta má sjá í ritinu Öld menntakonunnar eftir Gylfa Magnússon, dósent í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrum Efnahags- og viðskiptaráðherra. Venjulega fylgjast menntun og staða á vinnumarkaði að. Áhugavert.
Önnur staðreynd. Konum er mismunað hvað varðar laun og kjör. Þið þurfið ekki annað en að fletta 4. tbl. VR blaðsins frá 2012 (bls. 26) til að sjá það svart á hvítu.
“Flestar af þessum stelpum sem eru með þér í viðskiptafræði eru ekki að fara að græða neina peninga eða ná langt í viðskiptum. Þær eru bara ekki nógu miklir hákarlar.” -Ungur maður sem stundar nám í viðskiptafræði.
Það versta er að innst inni var ég sammála honum og fyrir það skammast ég mín. Einnig er sorglegt að ég skuli í raun bara gera ráð fyrir því að karlmaður með sama nám, svipaða reynslu og í svipaðri stöðu og ég sé með hærri laun.
Mér til varnar vil ég þó benda á að þau skilaboð sem ég hef fengið frá menntakerfinu, vinnumarkaðnum og samfélaginu almennt hafa óneitanlega mótað þennan hugsunarhátt minn. Það er alltaf verið að segja okkur að við séum svo duglegar og samviskusamar en samt virðumst við ekki ná að standa jafnfætis körlum.
Ég ætla að enda þetta á svari vinkonu minnar við spurningunni; “Er jafnrétti á Íslandi?”
“Það virðist vera já… en kannski meira í orði en á borði.”
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.