Allir verða hrifnir einhvern tímann. Þá tökum við sérstaklega vel eftir öllum þessum litlu smáatriðum sem einkenna fas og tal viðkomandi og heillumst líklega einmitt af því.
Það kom mér þannig kunnulega fyrir sjónir að lesa blaðaviðtal við kærustu gaurs sem hafði náð þeim vafasama titli að vera minn „hopless lover“.
Maðurinn hafði haft dálæti á eilítilli erótík og notaði sérstaka frasa um hitt og þetta – svona mállísku ef kalla mætti. Þar sem ég sat og las þetta viðtal við kærustuna skein þetta allt í gegn – manneskjan var greinilega undir miklum áhrifum og hljómaði líkt og búktalari gaursins, með sömu hugmyndirnar.
Var hann hún eða hún hann?
Það fór um mig einhver hrollur.
Fólk hlýtur að mixast saman í löngum samböndum og líkur sækir líkan heim, eða? Sami fatastíll og sömu skoðanir einkenna oft þessi mest samrýndu pör. En til hvers að vera að deita skoðana tvífara sinn, hvaða fjölbreytni er í því? Og hvaða ósjálfstæði er það að þurfa að draga dám af skoðunum síns heittelskaða? Jafn sætur maður og Brad Pitt þarna vestur í Hollywood er til dæmis með þetta allt á hreinu. Hann hefur deitað margar konur og nú giftur í annað sinn. Hann hefur greinilega ákveðið að vera alltaf í stíl við kærustuna hverju sinni eins og sést á hárgreiðslu- og fatastíl kappans!
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.