Með tilkomu netmiðla virðast samskipti okkar hafa einfaldast töluvert eða hvað ? Jú að vissu leiti hafa samskiptamiðlar hjálpað okkur til þess að endurnýja ýmis konar sambönd við vini og vandamenn og gerir okkur kleift að fylgjast með þeim. En gæti verið einhver fórnarkostnaður á bakvið þessa tæknivæðingu?
Er hamingja þín háð Facebook ? Samanburður á þér og öðrum á Facebook gæti verið að kosta þig hamingju þína.
Já, samkvæmt rannsóknum þá eru vísbendingar um það að sá tími sem við eyðum á Facebook hafi tengsl við tilfinningar okkar.
Þegar lögð var könnun fyrir notendur Facebook svöruðu 33% því að þau finni fyrir óhamingju þegar þau eru inni á Facebook og helsta ástæðan fyrir óhamingjunni er öfundin sem vaknar þegar verið er að bera líf sitt við annara (1).
Því meiri tíma sem við eyðum inni á Facebook eru auknar líkur á því að telja líf annara betra og hamingjusamara (2).
Ein besta formúlan að því að upplifa vanlíðan og óhamingju er að bera okkur saman við aðra og oftast eitthvaðsem við teljum æðra (upward comparison).
Félagslegur samanburður er okkur þó nauðsynlegur og jafnframt óumflýjanlegur, við lifum og hrærumst í félagssamskiptum við aðra og lærum að hegða okkur út frá því.
En þegar þegar þessi samanburður er farinn að byggjast á einhverskonar sýndarveruleika getur afleiðingin ekki verið okkur í hag.
Ekki hægt að verjast áhrifum
Þegar við erum á Facebook verðum við óhjákvæmilega fyrir áhrifum annara þar inni sem eru að setja inn ýmiskonar tilkynningar um líf sitt þá og þegar í máli og myndum.
Þrátt fyrir að við gerum okkur grein fyrir því að Facebook er félagslegur auglýsingavettvangur föllum við oftar en ekki í gildruna að sogast inn í þetta umhverfi og gleymum allri rökhugsun og yfirfærum raunveruleika okkar inn í sýndarveruleika Facebook og upplifum þannig misræmi á milli okkar og hinna.
Ekki má þó gleyma að alls ekki allir sogast inn í þennan óraunveruleikaheim sem margir skapa sér í gegnum samskiptamiðla og flest okkar eru meðvituð um þá ýktu hlið sem Facebook sýnir en við erum öll jú mannleg og við óskum okkar alltaf betra lífs og meiri hamingju þannig að það er ekkert skrýtið að „statusar“ hreyfi við tilfinningum okkar.
Það er á okkur sjálfum komið að láta ekki tilfinningar og líðan ráðast af Facebook og ef þú ert einn eða ein af þeim sem finnur fyrir smá depurð þegar þú skoðar Facebook þá eru hér nokkrir punktar fyrir þig til að hafa í huga.
Facebook megrun
Prófaðu að gefa þér smá tímabil þar sem þú dregur úr þeim tíma sem þú eyðir inni á Facebook, líkt og við gerum þegar við förum í “megrun” og drögum úr inntöku hitaeininga. Lífið er of stutt til þess að eyða dýrmætum tíma þínum í að horfa á sýndarveruleika annara í gegnum samskiptamiðla.
Náðu valdi á tilfinningum þínum
Tileinkaðu þér meðvitund um líðan og tilfinningar þegar þú ert inni á Facebook, lærðu að þekkja hvað vekur hvaða tilfinningar og líðan. Taktu eftir og viðurkenndu tilfinningar þínar í ákveðnum aðstæðum. Spurðu þig að því „Af hverju líður mér svona þegar ég les eða sé þetta?“ Þannig finnur þú rótina á bakvið tilfinninguna sem kviknar.
Notaðu hægra heilahvelið = RÖKHUGSUN
Facebooksíður eru prófíll af öðrum einstaklingum og í raun eru mjög margir sem setja sig í hlutverk eða ákveðinn karakter þegar þeir eru inni á Facebook.
Ákveðinn múgæsingur getur líka farið af stað, til dæmis ef einn vekur öfund hjá einhverjum þá er hann líklegri til að setja inn ýktari stöðu á sínu lífi, en það er það sem þeir vilja að ÞÚ sjáir en ekki HVERNIG líf þeirra er í raun og veru. Við vitum jú ekkert um það.
Þannig að ekki leyfa vinstra heilahvelinu sem eru tilfinningar ráða ríkjum, notaðu rökhugsun og virkjaðu síuna á því hvað er raunverulegt og hvað er ýkt. Flestir setja inn stöðu sem lýsir mjög jákvæðum eða mjög dramatískum fullyrðingum, vendu þig á að horfa á meðalveginn og deildu öllu með tveim.
Náðu stjórn á neikvæðum hugsunum og tilfinningum vegna Facebook
Hugsanir okkar einkennast af af…
Alltaf eða Aldrei hugsun: Alhæfing á það neikvæða: „Mér er ALDREI boðið með þeim“.
Fókus á það neikvæða: Við höfum tilhneigingu til þess að bera okkur saman félagslega við aðra á neikvæðan hátt „Af hverju er líf mitt ekki eins spennandi og þeirra?“
Tilfinningahugsun: Það að trúa því að neikvæðar tilfinningar séu byggðar á sönnu „Mér finnst ég vera vonlaus, ég hlýt að vera leiðinleg(ur)“.
Ýkt samviskubit: Sparka í sjálfan sig fyrir það að lifa ekki sama lífi og aðrir og eiga ekki það sama og aðrir „Ég er glatað foreldri vegna þess að ég get ekki keypt nýjan iphone handa barninu mínu eins og aðrir“.
Stimpla sig eða aðra neikvætt: Tilhneiging til þess að dæma sig eða aðra á neikvæðan hátt “Gat verið að monthaninn sé enn eina ferðina að birta mynd af sér”
Persónugera: Taka hlutunum persónulega og túlka þá gagnvart sér „Af hverju fæ ég ekki eins mörg ‘like’ á mína síðu/myndir/status eins og aðrir ?“
Næst þegar Facebook er að stjórna því hvernig þér líður skaltu ýta á Útskrá. Þannig hefur ÞÚ stjórnina í stað þess að taka þátt í einhverju sem lætur þér líða illa.
Heimildir
(1) Buxmann, P. og Krasnova, H. (2013). Envy on Facebook: A Hidden Threat to Users’ Life Satisfaction. 11th International Conference on Wirtschaftsinformatik.
(2) Chou, H. G., Edge, N. (2012). They Are Happier and Having Better Lives than I Am: The Impact of Using Facebook on Perception toward Others’ Lives. Cyberpsychology, Behavior, and Social Networking.
Ragnheiður Guðfinna er fædd árið 1980. Hreinræktaður Vestmannaeyingur í húð og hár. Hún hefur í gegnum tíðina sinnt ýmsum störfum til sjávar og sveita, meðal annars tekið á því í netavinnu og humarvinnslu, sinnt fyrirsætustörfum og sölu -og markaðsmálum svo sitthvað sé nefnt en í dag starfar hún sem ráðgjafi í vinnusálfræði hjá Stress.is. Ragnheiður á tvö börn og á fyrirtaks mann sem tekur rómantíkina alvarlega.