Margt nútímafólk glímir við það vandamál að eiga of mikið af dóti og geta alls ekki skipulagt það, hvað þá notað það! Það á alltaf að nota hlutinn seinna, gefa eða eitthvað…
Það gerist hinsvegar aldrei og draslið safnast bara upp víðsvegar um íbúðina, inni í skápum, ofan á borðum og hingað og þangað án þess að það sé nokkurntíma snert.
Útkoman er íbúð sem er gersamlega yfirfull af allskonar dótaríi þar sem öllu ægir saman á endanum. Í sömu skúffunni er þá kannski að finna skrúfjárn, pakkasúpur, nærbuxur og kattamat og út úr skápum velta pappírar sem þú veist ekki einu sinni hvaðan koma. Þú átt fjóra ostaskera, sex sleifar, allskonar kiljur og tímarit sem þú hefur aldrei svo mikið sem snert… hreinlega bara allt, allt, allt of mikið af hlutum og dóti sem veita þér enga gleði og skapa bara óreiðu í tilverunni hjá þér.
En það er hægt að díla við þetta!
Að megna ekki að taka til eða takast á við dót og drasl á heimilinu er svo algengt vandamál að það er meira að segja til 12 spora hópur sem heitir Clutterers Anonymous og ég veit að slíkur hópur er eða var amk starfandi á Íslandi. Ef þú ert ein af þessum konum… og gersamlega að bugast… þá skora ég á þig að taka á þessu vandamáli.
Það safnast nefinlega fyrir svo mikil andleg óreiða með þessari heimilisóreiðu. Ofan á kemur kvíði yfir að eiga alltaf þetta verk fyrir höndum heima… og á endanum geturðu ekki sinnt því sem skiptir máli af neinu viti af því hugurinn er alltaf hálfur við allt dótið og undir niðri kraumar kvíðinn yfir því að takast á við þetta og vonbrigði yfir sjálfri þér að geta það ekki.
Fly lady hjálpar þér
Á netinu eru óteljandi heimasíður og heilræði fyrir fólk sem þarf að eiga við svona vandamál. Hér er t.d. ein sem heitir Fly-Lady en hún lóðsar þér í gegnum De-Clutter ferlið skref fyrir skref. Vinkona mín kenndi sjálfri sér virkilega margt í sambandi við heimilshald með því að lesa þessa síðu sem er haldið úti af umhyggjusömum hússtjórnarkennurum í Ameríku.
Þær taka t.d. fyrir einfalda hluti sem þú átt að temja þér í hverjum mánuði, eins og til dæmis að halda eldhúsvaskinum ávallt hreinum og hafa borðfleti auða.
Ef þú kannast eitthvað við þessar lýsingar væri kannski heillaráð að kíkja daglega inn á Fly-lady.net og nema það sem þar er kennt. Ég hef séð lífsgæði aukast talsvert hjá vinkonu við það eitt að ná tökum á hlutum og óreiðu inni á heimilinu. Þú getur gert þetta líka. 😉
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.