„Ég er að verða brjáluð á þessum mönnum,” sagði vinkona mín. „Ég er endalaust að heyra svona sögur af mönnum sem eru ömurlegir en konurnar taka alltaf við þeim aftur,” sagði hún og var augljóslega frekar pirruð.
Mennirnir sem hún var að tala um eru svona hálfgerðir siðblindingjar. Þeir fara á milli kvenna og tekst stundum að hafa ansi mikið með sér í leiðinni. Hún sagði:
„Oftast eru þeir með eina sem þeir eru í krísu með og það er vanalega sú sem segir manni söguna. Þeir eru alltaf í (mis miklu) sambandi við þessa fyrrverandi, svona ef vera skyldi að það myndi ganga upp aftur… og þú mátt bóka að þeir eru líka farnir að dufla við þessa þriðju til öryggis, svona ef bæði eitt og tvö myndi ekki ganga.”
Hún bætti við að auðvitað væru til ein og ein kona sem hegðuðu sér svona en það væri öllu sjaldgæfara. Það sem fór samt mest í taugarnar á henni var hvernig konurnar láta alltaf plata sig aftur og aftur.
„Það er eins og þær þurfi ekkert nema eitthvað hrós, gullhamra eða þá einhverjar asnalegar gjafir, ef þeir eiga peninga. Og þessar konur láta ruglið ganga yfir sig aftur og aftur og taka alltaf við þessum mönnum þegar þeir vilja koma til baka. Eins og þær gleymi þá bara öllu þessu ömurlega sem hafði áður gengið á af því nú eigi allt að verða gott aftur. Skilja ekki að það er allt annað betra en að standa í svona vitleysu.”
Ekki byrjendabrölt í samböndum onei
Nú erum við ekki að tala um byrjendabrölt þeirra sem eru á tvítugsaldri. Nei. Við erum að tala um hópinn sem er í kringum fertugt og þar yfir.
Konur skilja við barnsföðurinn sem er orðinn eins og gamalt útrunnið tekex, fara á “markaðinn” með von um kærasta, kynlíf, ferðalög og gleði en viti menn… við taka nokkur ár af svona vitleysu. Mönnum sem rugla fram og aftur og virðast ná að ljúga klárustu konur upp úr skónum með tilheyrandi sálarangist fyrir þær. Og það versta er að við vorum ekki að tala um neitt eitt dæmi um eina konu, heldur mörg dæmi sem við höfum séð í kringum okkur og heyrt af. Það eru því miður allt, allt of margar í þessum sporum. Takk Tinder. Og niðurstaðan… jú, passið ykkur stelpur.
Þið þurfið ekki karl til að gera ykkur hamingjusamar. Finnið frekar sterkar konur til að umgangast. Byrjið á því. Búið til bakland með hópi af sterkum og flottum konum sem eru ekki afbrýðissamar, baktala ekki hvor aðra og gefa hvor annari styrk. Finna svo eina skemmtilega og hringja í hana daglega. Ræktið vinskap, ræktið tengsl við fjölskyldu, farið í heimsóknir og alls ekki gleyma að rækta ykkur sjálfar.
Ef ÞÚ hefur verið í þessum sporum, eða ert í þessum sporum, þá skorum við á þig að taka af þér gulu sólgleraugun og sjá sannleikann eins og hann er. Þú veist hvernig nákvæmlega þessir menn eru. Þeir lofa alltaf að það breytist eitthvað en svo breytist ekki neitt.
Ekki heldur í þetta skiptið. Mundu það og farðu að gera eitthvað skemmtilegt.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.