Ný fatalína ofurfyrirsætunnar Claudiu Schiffer hefur litið dagsins ljós, nánar tiltekið dagsbirtu Parísarborgar í morgun þegar hún var kynnt með pompi og pragt.
“Ég var dálítið stressuð af því ég kann ekki að teikna,” sagði þýska ljóskan við breska Vogue í viðtali sem birtist í dag.
“Ég var hrædd um að þetta myndi líta út eins og eitthvað sem sex ára gamalt barn mitt hefði teiknað en sem betur fer fékk ég góða aðstoð við að útfæra það sem ég var að meina.”
Línan samanstendur af gráum, svörtum, dimmbláum og drapplitum peysum og síðum prjónakjólum úr kasmírull. Schiffer segist leggja áherslu á vönduð efni og frágang og leikur sér gjarnan með mjög þröng snið sem eru fullkominn fyrir konur sem eru, líkt og Claudia, vaxnar eins og stundaglas.
“Mig langaði að hanna fatnað sem þú getur verið í hversdags en gengur samt ef þú ætlar að fara út um kvöldið. Eitthvað sem ég kalla stíl án fyrirhafnar eða “effortless chic.”
Einnig hefur Claudia hafist handa við að hanna nýja barnalínu en fyrirsætan á þrjú börn. ” Mig klæjaði alltaf í puttana að breyta fötunum sem krakkarnir mínir ganga í en núna ætla ég bara að hanna þau frá grunni.
Ekki er hægt að segja að lína Claudiu sé sérlega frumleg en fötin eru klassísk, klæðileg og án efa úr yndismjúkum efnum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.