Ég er ekki ein um það að finnast fegurðarsamkeppnir hallærisleg og úr sér gengin fyrirbæri.
Og já þó ég sé pjattrófa þá þarf maður ekki að fíla keppni í fegurð, fegurð er afstæð, hún er smekksatriði og persónulega finnast mér stelpur yfirleitt mikið sætari áður en þær fara í fegurðarsamkeppni en eftir hana…
Ég á bágt með að skilja þessa tilhneigingu að vilja móta allar stelpurnar sem taka þátt í sama mótið. Hvers vegna er meirihlutinn fengin til að aflita hárið, lita augabrúnirnar dökkar og vera ‘tanaðar í drasl’ með gervineglur?
Mér finnst hálf ómögulegt að þekkja þær í sundur eftir þessa meðferð, fyrir utan að ég veit ekki fyrir hvern þetta er gert. Hverjum finnst þetta ‘lúkk’ einstaklega fallegt? Ég er viss um að þær voru fallegri fyrir.
“Í gamla daga” voru fegurðardrottningar glæsilegar, tignarlegar eða saklausar í útliti en í dag virðist markmiðið vera að líkjast leikkonu sem sérhæfir sig í ‘fullorðinsmyndum’.
Er ekki kominn tími til að grípa í taumana, ég spyr bara “hvar er uppeldið?”
Mamma kenndi mér að það væri innri fegurð sem skipti mestu. Það var henni ekki gleðiefni þegar ég fékk tækifæri ung að árum að fara út í heim sem fyrirsæta en hún leyfði mér það með ströngum skilyrðum. Eitt skilyrði var að keppa aldrei í fegurð, annað að samþykkja aldrei að gera neitt sem mér þætti óþægilegt eða sýna nekt og það þriðja var að standa upp í hárinu á þeim sem reyndu að notfæra sér mig og það var í ófá skipti sem “ljúfa stúlkan ég” þurfti að stappa niður fótum og öskra til að ekki yrði valtað yfir mig í þessum harða heimi.
Hún kenndi mér líka að plokka á mér augabrúnirnar, mála mig og klæða svo ég yrði fín en liti EKKI út eins og ein tilkippileg og alltaf á lóðaríi.
Ungar stelpur sem fá litla sem enga kennslu eiga það nefnilega til að ofgera öllu og útkoman verður hræðileg.
Ég hef unnið með fjórum hópum af ungfrú Ísland keppendum og séð að stúlkurnar treysta þeim sem að keppnunum standa og leyfa þeim að gera þær útlitsbreytingar á þeim sem þau vilja. Ég vona bara að það fólk hugi að því hvaða skilaboð þau senda stelpunum sem taka þátt og til þeirra sem hafa áhuga á og fylgjast með. Fyrst ekki er hægt að leggja svona keppnir af væri fyrsta skref í átt að skynsemi að víkja frá þeirri stefnu sem hefur mótast að láta stúlkurnar líkjast stelpunum á Playboysetrinu í stað þess að leyfa eðlilegri fegurð þeirra að njóta sín.
Af virðingu við stúlkurnar sem hafa tekið þátt undanfarin ár þá birti ég ekki myndir af þeim, ég hef engan áhuga á að gera þetta að persónulegri gagnrýni.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.