Ef ég þarf sérstaklega á slökun að halda þá er fátt sem nærir mig betur en að liggja og fljóta í heitu vatni og sé slökunarþörfin mikil þá fer ég í Bláa Lónið.
Eftir ferð í Lónið er maður svo fullkomlega endurnærður, afslappaður og góður -svo ekki sé minnst á hvað þetta er frábært fyrir húðina sem ljómar alltaf rennislétt eftir baðið og gufurnar.
Ég á vetrarkort í lónið sem kostar sirka jafn mikið og tvær ferðir ofan í og ég hugsa: Ef kona hefur efni á að fara á „djammið“ eitt kvöld og eyða 10.000 í það, hefur hún þá ekki alveg eins efni á vetrarkorti í eitt besta SPA í heimi? (er maður ekki allur í svona reikningi núna?).
Vinkonuferð
Skömmu fyrir jól fórum við Pjattrófur saman í lónið og áttum alveg æðislegan dag, langt í burtu frá jólastressinu og amstrinu í kringum það.
Við fórum í sérstaka Betri Stofu sem er ætluð litlum hópum.
Þangað kom hann Rúnar til okkar með brönsinn; eggjahræru, reyktan lax og skyrboost og við máttum borða eins mikið af ferskum ávöxtum og við vildum, endalaust konfekt og drekka eins mikið af kaffi og við vildum.
Betri Stofan er semsagt virkilega flott og sé maður aðdáandi arkitektúrs og hönnunar þá er þetta sérlega mikið kikk. Svo er rétt að taka það fram að gestir Betri stofunnar fá privat búningsklefa sem einn eða tveir gestir geta verið í saman. Mjööög næs og eflaust alveg súper rómantískt hafirðu ástarferð í huga.
En við vinkonurnar sátum alsælar á sloppunum og létum fara vel um okkur inni í þessu flotta húsi. Töluðum um ástina og lífið og vorum sannarlega ekkert að flýta okkur enda á maður að hafa allann tíma í heimi þegar farið er á þennan frábæra stað. En eftir heilmikið spjall fórum við útí lónið, enda biðu okkar nuddarar með spenntar greipar.
Að láta nudda sig í Bláa Lóninu er eins og að láta senda sig í aðra vídd. Maður hreinlega endurfæðist þarna fljótandi þyngdarlaus í heitu vatninu meðan faglærður nuddari vindur úr manni stressið.
Það er ekki auðvelt að lýsa þessu en ímyndaðu þér að þú sért aftur komin í móðurkvið og að áhyggjur og kvíði og stress séu hreinlega fjarlægðar í þann tíma meðan nuddið stendur yfir… þetta er sirka þannig.
Eftir ferðina vorum við svakalega glaðar og þakklátar, allar sem ein. Þetta er eitthvað sem er algjörlega óhætt að mæla með fyrir vinkonuhópa og ég hvet alla óspart til að skoða þennan æðislega, séríslenska möguleika á góðum degi, hvort sem er par, vinkonur, vinir, familía eða vinnufélagar.
Bláa Lónið er Guðs gjöf til Reykjanessins.
Díana Bjarnadóttir „pjattrófa“ tók þessar fallegu myndir í ferðinni okkar.

Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.