Laugardaginn 19. október var glæsileg opnun á sýningunni Endemis (ó)sýn, í efri sölum Gerðarsafns í Kópavogi í tilefni þess að myndlistar tímaritið Endemi var gefið út í annað sinn.
Það var margt um manninn og opnunin öll hin glæsilegasta en sýningin stendur frá 19.nóvember 2011 til 8. janúar 2012.
Að Endemi standa átta ungar konur með mismunandi bakgrunn:
Ásta Briem, kvikmyndagerðarkona, Elísabet Brynhildardóttir, hönnuður og myndlistarkona, Lilja Birgisdóttir, myndlistarkona, Ragnhildur Jóhannsdóttir, myndlistarkona, Selma Hreggviðsdóttir, myndlistarkona og Perla Dagbjartar Hreggviðsdóttir, mannfræðingur.
Listaspíra Pjattsins fékk að leggja nokkrar spurningar fyrir þær.
-Hvað er ENDEMI?
Endemi er tímarit um íslenska samtímalist með áherslu á list kvenna. Markmið tímaritsins eru að skapa vettvang fyrir íslenska samtímalist, brúa bilið milli almennings og myndlistar, og rýna í kynjaójafnvægi í lista- og menningarumfjöllun. Blaðið er að stórum hluta gallerý og flest verkin sem við birtum hafa sjaldan eða aldrei verið til sýnis áður. Endemi er sannkallað augnakonfekt, stútfullt af íslenskri myndlist sem gaman er að handfjatla og rýna í.
Endemi er ekki fræðirit og við gefum okkur ekki út fyrir það. Við gerum hluti sem okkur þykja áhugaverðir og vonandi finnst öðrum það líka. Megináhersla Endemi er á hið sjónræna. Það má í raun segja að Endemi sé ákveðin tilraun til að brjóta upp hið hefðbundna tímaritsform, á sama tíma og við skoðum og veltum upp áleitnum spurningum um listasenuna, aðgengi að henni og fjölmiðlun um menningarmál.
Þið kynnið verkefnið sem tímarit um samtímalist íslenskra kvenna, lítið þið svo á að listheimurinn þarfnist þessara aðgreiningar á list kvenna og karla?
Listheimurinn þarfnast ekki aðgreiningar kynjanna, hann sér alveg um það sjálfur. Eins og á svo mörgum sviðum samfélagsins þá hafa konur ekki eins mikið aðgengi og umfjöllun og karlmenn, þær þurfa að berjast meira. Góð dæmi eru Feneyjartvíæringurinn og nýútkomin Listasaga. Gildi og viðmið samfélagsins ganga gjarnan útfrá karlægri sýn og hleypa síður að kvenlægum eiginleikum.
Þegar þið gáfuð út fyrsta tölublaðið þá hélduð þið sýningu og opnunarhóf í Kling og Bang gallerý, er það stefnan að vera með sýningu í tilefni útgáfu nýs tölublaðs í hvert skipti sem blaðið kemur út?
Já, við erum fyrst og fremst að skapa vettvang fyrir listamenn. Með því að halda myndlistarsýningu í tilefni hvers tölublaðs leitumst við við að gera listamenn enn sýnilegri. Eins viljum við ekki festa okkur við ákveðin sýningarrými eða samfélagshópa og munum því halda útgáfusýningar í mismunandi rýmum. Með þessu erum við einnig sjálfar að kanna hvernig er best að nálgast ólíka hópa fólks. Við viljum víkka áhorfendahóp myndlistar, auka aðgengi og dreifa boðskap listarinnar. Við erum að kanna þá möguleika sem söfn, gallerý, listamanna rekin og önnur óháð rými hafa uppá að bjóða.
Hvað þykir ykkur áhugavert í myndlist í dag?
Það eru mjög spennandi hlutir að gerast í myndlistinni á íslandi í dag og erfitt að velja eitt fram yfir annað. Oft eru margar opnanir í viku út um allan bæ, alveg ótrúleg framkvæmdargleði og orka í gangi. En það mætti bæta aðgengi þess fólks sem ekki lifir og hrærist í myndlist að senunni.
Listaspíran er svo sannarlega sammála því og hvetur lesendur Pjatt.is eindregið til að skoða þessa frábæru sýningu og tímaritið sjálft.
Myndlistakonan Katrín I. Jónsdóttir Hjördísardóttir Hirt er með óhefðbundnar leiðsagnir kl 15:00 á sunnudögum meðan á sýningunni stendur og eru allir velkomnir.