Leikkonan Emma Stone er í skemmtilegu viðtali í nýjasta hefti tímaritsins Fairlady um ferilinn, barnæskuna og hvers vegna hún laðast að því að leika frekar í grínmyndum en að taka að sér alvarleg hlutverk.
Emma segir að hún vilji miklu frekar vera fyndin heldur en kynþokkafull og henni finnist fátt skemmtilegra en að horfa á grínmyndir og hlægja mikið. Emma segir að þegar hún var að alast upp þá hafi hún horft mikið á “Saturday Night Live”. Þar heillaðist hún af Steve Martin og Bill Murray en Emma segir að þeir hafi verið fyrstir til að veita henni innblástur til að leika í gamanmyndum.
Þegar Emma var lítil fór mamma hennar með hana í leiklistartíma því hún hélt að það myndi hjálpa henni að einbeita sér betur. Emma þjáðist nefninlega af miklum kvíða þegar hún var yngri og fékk sitt fyrsta kvíðakast þegar hún var átta ára.
Hún segist ekki vita af hverju hún var svona kvíðin en hún ímyndaði sér oft að það myndi kvikna í húsinu hennar og var alltaf með krepptar hendur vegna kvíða.
Foreldrar hennar fóru með hana í meðferð vegna kvíðans og þegar hún var búin að vera í henni í dágóðan tíma ákvað hún einn daginn að hún vildi verða leikkona! Þetta segir okkur að meðferðin hlýtur að hafa gert sitt gagn.
Hollywoodlífið er samt ekki alltaf dans á rósum að sögn Emmu en hún ferðast mikið og er ekki mikið heima hjá sér.
Emma segir einnig að fólk komi inn og út úr lífi sínu þegar hún ferðast. Hún kynnist fólki náið í stuttan tíma og svo allt í einu er það horfið úr lífi hennar. Frekar furðulegt finnst henni en hún líkir þessu við sumarbúðir þar sem þú kynnist alltaf nýju fólki í nokkrar vikur án þess að fara heim til þín inn á milli.
Emma virðist vera ein af þeim sem er með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir að lifa og hrærast í Glysborginni og það verður spennandi að sjá hvaða framtíðarhlutverk hún tekur að sér.
Rannveig er útskrifuð sem hársnyrtir en leggur nú stund á nám í fjölmiðlafræði. Henni finnst fátt skemmtilegta en að stunda margskonar líkamsrækt og er ekki hrædd við það að prófa nýjungar í þeim efnum, Rannveig er þessi týpíska meyja sem verður að hafa allt tip top, ofur pjöttuð að mati margra en lætur sér fátt um það finnast. Hún á tvo stráka og er harðgift.
Fylgdu Rannveigu á Instagram rannveigjonina og á Twitter @MissisRannveig