“Ég mun ekki segja um fólk neitt sem ég get ekki sagt við það sjálft eða börn þess”.
Nú er meistaramánuðurinn genginn í garð og margir hafa sett sér markmið sem miða að því að bæta lífið og tilverunna.
Elínrós Líndal, sem á og rekur E L L A, hefur sett sér frábær markmið fyrir meistaramánuð en hún skrifaði um þau á Facebook síðu sína í dag og gaf okkur leyfi til að birta. Elínrós segir:
≅
“Hugmyndin á bakvið Meistaramánuðinn er að koma inn í daginn einföldum hlutum sem maður hefur áhuga á að tileinka sér til frambúðar. Hugmyndin er góð og fær mann til að hugsa hvernig hægt er að bæta annars gott líf.
Eitt af því sem mig langar að hafa áhrif á er sú orðræða sem mér finnst einkennandi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Eitthvað sem var fátítt fyrir efnahagshrun síðla árs 2008.
Þess vegna hef ég ákveðið að í þessum mánuði mun ég reyna að hætta að tala um okkur og hina, listafólk og business fólk, vinstri græna og sjálfstæðismenn, útlendinga og Íslendinga.
Ég mun ekki segja um fólk neitt sem ég get ekki sagt við það sjálft eða börn þess.
Ég mun ekki mynda mér skoðanir um aðra sem ég ekki þekki og heldur betur ekki fara að pósta myndum af fólki sem gegnir opinberum embættum og rífa það niður.
Ég mun ekki taka þátt í umræðu sem ekki er uppbyggileg og úrlausnadrifin. Ef ég sé vegið að persónum óvægilega mun ég reyna mitt besta til að verja það. Því orð eru til alls fyrst og megi það byrja með mér.”
≅
Frábær markmið Elínrós! Við munum gera slíkt hið sama.
Ert þú með markmið í Meistaramánuði? Segðu okkur frá þeim á Facebook síðu Pjattrófanna.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.