Einu sinni sem oftar sat ég og borðaði fínan hádegismat á enn fínna veitingahúsi í París.
Tveir vinir mínir höfðu verið svo sætir að bjóða stelpunni og á meðan þeir voru að tala saman gleymdi hún sér við að horfa á gestina.
Það var stórkostleg sjón í ríkmannlegu setti. Þetta var reyndar staður sem ég hefði varla farið á nema sem boðsgestur, enda virtust viðskiptavinirnir hreinlega kveikja upp í vindlunum með seðlabúntunum. Það var einmitt þetta ríkidæmi og floss sem var svo gaman að skoða.
Inn komu flokkar af aröbum, svo kyrfilega gullskreyttir að varla sást í þá. Samanþjappaðar ríkar kerlingar í milljóna loðkápum sem voru svo voldugar að á þeim myndaðist hinn skemmtilegasti herðakistill eins og á hringjaranum í Notre-Dame. Ég man að ég gapti af einskærri forvitni yfir taktleysi hinna ofurríku og forljótu mannvera.
Annar vinur minn, listamaður af gamla skólanum hnippti þá í mig og lagði línurnar fyrir mig ævilangt:
“Þér megið aldrei horfa á fólk nema það sé fallegt”
Mér verður oft hugsað til orðanna hans þegar ljótleikinn og taktleysið mæta mér, enda er þetta svo rétt. Það er líka miklu fallegra og manneskjulegra að horfa á einhvern í hrifningu… og manneskjan hlýtur að finna það.
Það er ef til vill líka kurteisi að veita ljótu fólki friðhelgi frá starandi augnaráði, -nógu erfitt hlýtur að vera taktlaus eða ljótur nema bæði sé eins og í þessu tilviki.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.