Um þessar mundir finnst mér eins og önnur hver manneskja tali um að þetta sé lengsti janúar sem þau hafa upplifað og fólk hefur áhyggjur af þessu skammdegisþunglyndi. Heldur að það sé eitthvað mikið að því. Eins og það sé ekki eðlilegt að vera búin á því og hálf niðurdregin á þessum árstíma. Ég er það að minnsta kosti.
Það væri mjög skrítið að vera EKKI í skammdegisþunglyndi
Svarið er samt einfalt. Það væri mjög skrítið að vera EKKI í skammdegisþunglyndi í þessum janúar og ástæðan er ekki flókin. Málið er að heilinn í þér er búin að vera að offramleiða melatónín frá því í október og nú í janúar er framleiðslan að ná algjörum hápunkti.
Melatónin er efnið sem gerir okkur sljó og syfjuð. Það notað sem svefnlyf í töflu eða vökvaformi. Halló?
Til að bæta gráu ofan á svart þá er erfitt fyrir okkur flest að fara snemma að sofa af því auðvitað er fólk mest vakandi þegar það er bjart úti. Svo kemur maður heim úr vinnu og langar til að slaka á, ekki endilega sofandi heldur með því að glápa á sjónvarpið eða hanga í tölvunni og lesa gæðagreinar á Pjattinu. Þá getur orðið erfiðara að fara á fætur (lestu bara Pjattið meðan þú ert í vinnunni).
Erum við kannski bara bipolar
Þegar vorið gengur í garð verðum við svo öll hálf manísk enda dregur þá svo stórlega úr melatónín framleiðslunni í heilanum. Við sprettum fram úr snemma á morgnanna og hendum okkur í ræktina eða sund fyrir vinnu. Komum svo heim og tökum til í skúrnum og geymslunni, grillum og tönum. Brosandi hringinn. Ætli Íslendingar séu ekki allir hálf bipolar þegar allt kemur til alls?
Fake it till you make it
Til að draga úr þessu rugli er ég búin að fá mér magnaða ljósaperu frá Philips Hue sem er tengd við Sleep Cycle appið og þannig get ég vaknað við „sólarupprás“ alla morgna. Á sumrin er það svo bara andlitsgríman og black-out gardína og stundum eyrnatappar til að vakna ekki við sturlaða fugla kl 05:00. Þetta gerir lífið skárra. Ekki fullkomið, en að minnsta kosti er hægt að feika smá náttúrulegt jafnvægi með þessu.
Lokaorðin: Það er ekkert að þér. 🧡„Just hang in there kid“
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.