„Hvað viltu fá í afmælisgjöf mamma?” Spurði dóttir mín fyrir einhverjum dögum. Ég þori varla að segja það upphátt en jú ég er að verða árinu eldri í lok mánaðarins.
Ég var lengi vel mikið afmælisbarn og fann fyrir kítli í maganum þegar það fór að styttast í daginn minn. Undanfarin ár hef það breyst heilmikið. hugsaði mig um stutta stund en datt ekkert í hug.
Ég svaraði á þá vegu að mig langaði að eignast eitthvað heimatilbúið því hún er svo dugleg í höndunum. „Ekkert annað?” Spurði hún aftur.
„Jú, veistu, mig langar í frið og ást…bara kærleik. Það hljómar kannski eins og einhver klisja en í það er í rauninni það eina sem ég óska mér. Jú, kannski langar mig líka að verða skotin. Ekkert flókið, annað hvort glitra inni í mér eða sanka að mér fallegum glitrandi hlutum.”
„Mamma, það er ekki gjöf, það er bara ósk”, sagði hún og flissaði.
Ég fór þá að láta hugann reika og komst að því að það er eitt sem ég hef alltaf elskað og mun alltaf elska: „Ég óska mér einhvers sem er gulllitað og glitrar.”
Loksins hafði hún fengið svarið sem hún óskaði eftir og brosti breitt. „Ohh, þú ert svo mikil pjattrófa mamma!!”
Hver elskar ekki gull?
Vatnsberinn Marín Manda fæddist í Danmörku, er alin upp á Íslandi en hefur þó mestmegnis búið í Kaupmannahöfn á fullorðinsárum. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina: markaðsmál, blaðamennsku, útvarp, hönnun og sölu. Hún hefur rekið eigin verslun og er núna í fullu námi í nútímafræðum.
Marín Manda elskar að ljósmynda, hjóla með vindinn í andlitið, þræða nytjamarkaði, skoða innanhúshönnun, ferðast á framandi slóðir og svo er hún nýbúin að uppgötva jóga. Hún er ferðalangur, mikil draumórakona og stundum einum of einlæg. Hún er líka mamma, á tvö dásamleg börn sem heita Alba Mist og Bastian Blær.
Mottó: Kýldu á það!