Fyrir mörgum, mörgum árum las ég grein í heilsublaði sem fjallaði um ‘faldar hitaeiningar’ en það eru þessar hitaeiningar sem leynast í daglegum matarvenjum okkar.
Með því að skipta um nokkrar einfaldar venjur má fækka þessum ‘óþarfa’ hitaeiningum talsvert mikið og missa nokkur kíló í staðinn.
Höfum samt í huga að einfaldasta reglan er fyrst og síðast að sleppa sætabrauði, mjúku brauði og sælgæti.
Það á við um gosdrykki og allt annað gotterí. Þetta þarftu að gera ef þú vilt grenna þig, hvort sem er mikið eða lítið og þetta hefur verið vitað síðan byrjað var að framleiða sætabrauð og sælgæti.
En hér eru fleiri ráð sem eru skotheld og krefjast ekki mikilla fórna. Margt smátt gerir eitt stórt og ef þú hliðrar bara örlítið til í daglegum venjum gætirðu séð mikinn árangur innan tíðar.
‘Kick this-Pick that’
1. Hættu að nota smjör
Smjör er hrein fita og í hverri teskeið er góð kaloríubomba. Það er ekkert mál að sleppa smjörinu og nota bara magurt kjötálegg, reyktan lax og kannski Dijon sinnep eða léttan sýrðan rjóma 10% með t.d. hvítlauk ofan á gróft Delba brauð. Kotasæla er líka góð, t.d. með saxaðri papriku, eða gúrku.
2. Ekki drekka latte eða setja mjólk í kaffið
Fáðu þér heldur soja latte eða drekktu bara svart kaffi. Á einum degi gætirðu kannski klárað eins og eina eða tvær litlar g-mjólkurfernur út í kaffibollana án þess að hugsa út í það. Þetta telur nokkuð margar hitaeiningar.
3. Hættu að fá þér djús og gos og drekktu vatn
Reyndar er mjög mikilvægt að drekka vatn alla daga og þú átt ekki að fá þér Trópí, gos eða álíka drykki til að svala þorstanum. Hreint og óblandað vatn er málið. Hafðu það í bílnum og ávallt við hendina.
4. Hafragrautur í stað morgunkorns
Morgunk0rn í pökkum virðist ósköp sniðugt en hafragrautur er mikið sniðugri. Þú þarft ekki að sjóða hann í potti, það er nóg að setja haframjöl, kanil og kannski rúsínur, bláber eða banana í skál og hella svo sjóðandi vatni yfir. Láttu bíða í 5 mín, t.d. meðan þú málar þig, og sestu svo að snæðingi. Þetta gefur þér rosalega góða orku sem endist lengi yfir daginn. Best er að fá sér eitt eða tvö harðsoðin egg með í leiðinni.
5. Hnetur, möndlur, fræ og skornir ávextir í staðinn fyrir nammi
Þetta er frábært snakk. Fæst í öllum matvörubúðum og er frábært ef þú færð þörfina til að narta og nasla. Passaðu þig bara að fá þér ekki of mikið í einu.
6. Útbúðu nesti
Notaðu nú ísboxið undir gott nesti sem þú tekur með í vinnuna eða skólann. Tvær grófar brauðsneiðar eða hrökkbrauð með áleggi, harðfiskur, vínber eða aðrir ávextir, ein bollasúpa (lífræn) og einn 70% dökkur súkkulaðimoli með kaffinu eftir mat. Með þessu sparast BÆÐI peningar og hitaeiningar. Gæti ekki verið betra.
7. Ekkert nasl
Og að lokum… EKKI BORÐA EFTIR KVÖLDMAT!! Fáðu þér frekar tebolla (þeir mega vera 10) eða vatn og gleymdu þér yfir einhverju öðru en narti og nammiáti.
Ef þú gerir bara þetta sem stendur hér fyrir ofan þá lofa ég þér að nokkur kíló munu fjúka fyrr en varir. Ég hef gefið þessi ráð í mörg ár og séð árangurinn á ófáum frænkum og vinkonum.
Virkar kannski of einfalt til að vera satt en sjón er sögu ríkari. Ein sem ég þekki missti heilan helling af kílóum bara með því að segja 100% bless við brauð og smjör úr daglegu mataræði.
Prófaðu 😉
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.