Heimilishald: Ég hreinsaði ofninn minn og hann varð eins og nýr á eftir – Kennsla!

Heimilishald: Ég hreinsaði ofninn minn og hann varð eins og nýr á eftir – Kennsla!

hreinn_ofn_aðferð
Um daginn réðist ég í það stórkostlega verkefni að hreinsa ofninn minn. Undir venjulegum kringumstæðum væri þetta hreint ekki í frásögu færandi en árangurinn var í orðsins fyllstu merkingu svo skínandi að ég má til með að deila aðferðinni með þér.

IMG_7768Reyndar snappaði ég alla athöfnina og birti á Pjattsnappinu (@pjattsnapp) og fékk til baka nokkur komment um að ég mætti til með að kenna lesendum þetta… sem ég mun nú gera.

(Ég óska Karli, Sigríði og Helgu sérstaklega góðs gengis í þessu stóra ofnamáli. Þori að veðja að líf ykkar mun breytast til hins betra eftir að ofninn endurfæðist! 😂)

Konan sem hreinsar ofninn sinn

Til að hreinsa ofninn þinn svo hann verði eins og skurðstofa á eftir þarftu kannski aðallega pínu kreisíness til að nenna að standa í þessu.

Þú þarft líka eftirfarandi:

  1. Eldhúsrúllu
  2. Mataredik í spreybrúsa (blandar 1 á móti 2 af vatni)
  3. Matarsóda
  4. Hreinsikrem og svamp
  5. Sköfu
  6. Plastpoka
  7. Gúmmíhanska
  8. Góða tónlist eða hljóðbók og slatta af þolinmæði
  9. Vatn að drekka

Ég byrjaði á að taka allar grindurnar út (líka þessar í hliðunum) og bera mauk úr örlitlu vatni og matarsóda inn í ofninn. (Það er líka mjög sniðugt að láta þetta standa yfir nótt.) Passaðu að bera ekki neitt á hitaplötuna aftast (þessa sem viftan er í).

Á meðan lét ég grindur og skúffur standa í sjóðandi heitu sápuvatni.

Því næst úðaði ég edikblöndu inn í ofninn og dreifði úr öllu með svampi. Mikið stuð. Það freyðir og læti.
Lét þetta standa svolítið og náði þá í sköfuna.

IMG_7816Skafan er algjört undratæki og ég skil ekki af hverju manni hafði ekki hugkvæmst þetta áður. Óhreinindin, fitubrákin og annað sem vill festast við ofninn fór bara af um leið og ekkert rispaðist. Þú getur notað venjulega málningarsköfu, frostsköfu eða annað álíka verkfæri.

Svo þurrkaði ég skafið burt með eldhúsrúllu. Ekki spara hana.

Þá tók ég Hreinsikremið og bar á með svampi skv leiðbeiningum. Skóf svo meira og svona koll af kolli þar til ofninn varð alveg tandur skínandi hreinn. Þá fór ég yfir þetta með edikblöndunni og Voila! Ég starði inn í ofninn eins og móðir á nýfætt barn. Þvílík fegurð!

Í lokin hreinsaði ég grindur og plötur með Hreinsiefninu, svampi og sköfu (á erfiða bletti á plötunum).

Matarsódi, sítróna og edik

Þér að segja vissi ég ekki að það væri hægt að hreinsa ofn þannig að hann yrði bara aftur eins og nýr. Þetta kom mér mjög á óvart og nú er ég hreinlega komin með áráttu fyrir því að hreinsa með ediki, matarsóda og þessu hreinsikremi. Bættu sítrónu við og þá erum við komnar með partý.

Til dæmis er ekkert sem hreinsar gler jafn vel og þessi blanda af ediki og vatni. Ísskápurinn þinn og frystirinn verður líka eins og nýr ef þú þrífur með ediki. Um leið sótthreinsarðu og eyðir upp vondri lykt.

Ég skora á þig að prófa þetta. Og mikið yrði ég kát að fá myndasendingu á Pjattsnapp líka. Sameinast í gleðinni yfir hreinum ofni. Mín innri húsmóðir mun skríkja af kæti.

Gleðilega vorhreingerningu! ☀️

 

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest