Um daginn las ég viðtal við konu sem giftist sjálfri sér fyrir nokkrum mánuðum. Mér fannst það brilljant hugmynd. Svo var gert grín að þessu í áramótaskaupinu en ég hugsaði „Hey slappið af þetta er nú ekki einu sinni fyndið. Hver hefur ekki lent í því að giftast sjálfri sér?“
Hvenær ætlar þú eiginlega að gifta þig?
Hjá mér gerðist þetta á síðustu öld. Málið var að ég var einhleyp og ég var alltaf að fá þessa gáfulegu spurningu, hvenær ætlar þú að gifta þig? Mjög gáfulegt að spyrja einhleypt fólk að þessu og ég var orðin leið á að vera alltaf að svara. Þannig að á endanum kom ég með jafn gáfulegt svar:
Ég ætla að gifta mig næst þegar 18. júní ber upp á laugardegi. Að sjálfsögðu skoðaði ég dagatalið fyrst og sá að það var langt í þetta. Svo langt að annað hvort yrði ég komin með vænlegan aðila til að giftast eða allir yrðu búnir að gleyma þessu.
Þegar 18. júní bæri upp á laugardegi þá kæmi að þessu hjá mér.
Svo liðu árin og ég samviskusamlega svaraði öllum sem spurðu, að næst þegar 18. júní bæri upp á laugardegi þá kæmi að þessu hjá mér og svo kom að árinu þar sem akkúrat þetta gerðist. Ég svipaðist stuttlega um eftir maka, hvort ég gæti dregið einhvern með mér en allir svöruðu nei alveg sama hvernig ég spurði (reyndi meira að segja að múta einum eða tveimur).
Að giftast eða ekki giftast!
Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur. Örlagadagur minn en ég myndi ekki giftast þennan dag, það var á hreinu. Þá er bjöllunni hringt og ég fer til dyra, stendur ekki vinkona mín fyrir utan með stóran rósavönd og myndavél. Varstu búin að ráða ljósmyndara spurði hún? Ég verða að játa að ég varð smá ringluð eitt lítið augnablik, „Ljósmyndara fyrir hvað?!“ „Nú giftinguna þína. Ef enginn vill giftast þér á giftistu bara sjálfri þér og ég ætla að mynda það, áttu ekki eitthvað hvítt?“
Ég hugsaði mig ekki tvisvar um. Ég skellti mér í hvít eðal náttklæði sem ég átti í skápnum, setti á mig smá gloss og greip rósirnar. Myndin er hér fyrir neðan og þarna er ég, nýgift engum öðrum en sjálfri mér (ekki how I met your mother samt). Þetta hjónaband hefur reynst afar vel og ég er ekki enn skilin, munaði að vísu smá þarna á tímabili en ég náði sáttum við sjálfa mig (án ráðgjafa) og hef nú farið í gegnum súrt og sætt í 26 ár.
Geri aðrir betur!
Kveðja,
Anna Kristín
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.