Myndarlegt karlmódel addaði mér inn sem vin á Facebook. Ef þetta er ekki toppurinn, þá veit ég ekki hvað.
Þarna lá hún þessi litla vinabeiðni frá módelinu sem ég þekkti hvorki haus né sporð á og beið þess eins að verða samþykkt. Það var lítið mál, sérstaklega eftir að ég hafði rennt augunum yfir allar flottu módelmyndirnar af herramanninum. Þarna var hann í mismunandi ljósi og pósum, í lit og svarthvítu en alltaf jafnsætur.
Vá maður!
Vinkona mín sagði mér að fólk væri mikið að klukka hvort annað á þennan hátt og ég var eiginlega dálítið spennt, hvað værir þú það ekki?
Eftir að ég eignaðist þennan nýja vin beið ég þess auðvitað að heyra meira í honum. Sá fagri hafði hins vegar alls ekkert samband aftur en ég kíkti oft á síðuna hans og sá þá að hann var með 998 vini!
Það runnu tvær grímur á fröken „dingaling dúmm dúmm“ – bjútí-ið var bara að safna kvenkyns vinum og ég var númer 998.
Skyldi þetta flokkast undir throphy gæja eða hvað? Hér í eina tíð söfnuðu þeir þó aðallega nærbuxum og eyrnalokkum sem bólfélagar gleymdu hjá þeim í hita leiksins.
Nú er öldin önnur…
– kær kveðja, „númer 998“.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.