Það er helst þrennt sem fer í taugarnar á mér í fari annarra; dónaskapur, tilætlunarsemi og sjálfsvorkun.
Bresk tveggja barna móðir kennir of lágum bótum um yfirvigt sína. Hvað er að gerast??
Christina Briggs varð ólétt ung og hætti í skóla. Nú er hún 26 ára tveggja barna móðir og kveðst ekki geta unnið fyrir sér og börnum sínum þar sem hún þarf að sjá um þau. Hún þiggur því bætur, um fjórar milljónir á ári, frá breska ríkinu og býr í húsnæði á vegum Manchester-borgar.
Briggs er í mikilli yfirþyngd og segir ástæðu þess vera of lágar bætur breska ríkisins til hennar. Hún og börnin neyðast til að nærast á skyndibita og þá einna helst kínverskum mat, pizzum og snakki.
Briggs hafði séð fyrir sér að byrja að synda en finnst það of dýrt, kaup á sundkorti myndi verða til þess að hún hefði ekki efni á skyndibita.
Briggs hefur nún skorað á breska ríkið að hækka bæturnar svo að hún geti keypt hollan mat og hreyft sig.
Ég skora á Briggs að gera fjárhagsáætlun, fá sér vinnu og senda tveggja ára son sinn í leikskóla.
Nú er ég ekki að gera lítið úr fólki sem glímir við offitu. Ég er að benda á þennan galla að kenna öðrum og aðstæðum alfarið um vandræði sín.
Fréttin um Briggs er eitt dæmi en síðan er til fjöldinn allur af öðrum dæmum.
Ólíkum dæmum sem snúast um önnur mál en kjarninn er sá sami; Ef að þetta væri ekki svona og hinseginn þá væri ég sko… og þá hefði ég gert eða ekki gert þetta.
Allt er hægt þegar viljinn er fyrir hendi og ef viljinn er ekki fyrir hendi hættu þá að væla stelpa og ætlast til þess að aðrir vinni vinnuna fyrir þig. Það sagði enginn nokkurntíma að lífið ætti að vera auðvelt.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.