Að vera foreldri eru forréttindi. Ég passa að hafa það alltaf í huga; börnin mín öll sem eitt eru kraftaverk og ég er svo þakklát fyrir að fá það hlutverk í lífinu að ala þau upp…
Ég á stóra fjölskyldu. Við hjónin eigum sex börn og eru fimm af þeim úr fyrri samböndum en börnin okkar eru á aldrinum fimm vikna til tíu ára. Þó að ég hafi ‘bara’ gengið með 3 af þessum 6 börnum þá tala ég um þau öll sem börnin mín og hef alltaf gert það en ég er hinsvegar kölluð mamma, stjúpmamma og Bjarney hérna heima.
Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa þessa grein er sú að síðan við unnusti minn byrjuðum saman hef ég oft fengið hinar ýmsu spurningar eins og til dæmis:
“Hvernig í ósköpunum ferðu að þessu” og “áttu einhvern frítíma” eða “hvernig náið þið að sinna sambandinu” eða “hvernig ganga samskiptin við alla hina foreldranna?” Algengasta spurningin er þó: “Er ekki erfitt að vera með 6 börn!?” og þá fæ eg oft að heyra í kjölfarið að viðkomandi gæti þetta aldrei, 26 ára með 6 börn, ég sé bara hetja og ofurkona en ég skal sko segja ykkur að ég er það ekki.
Virðing og skipulag
Hvernig fær maður þetta til að ganga? Örugglega er það misjafnt á milli sambanda en frá því að við unnusti minn fórum að vera saman höfum við alltaf sýnt hvort öðru mikla virðingu, bæði þegar það kemur að uppeldinu, heimilinu og sambandinu en hann er algjörlega kletturinn minn.
Dagarnir hjá okkur fjölskyldunni eru mjög misjafnir enda margt sem gengur á og börnin hafa ekki öll lögheimili hjá okkur þó svo að það væri auðvitað yndislegt.
Við tökum börnin eins mikið og hægt er þannig að þessi dæmigerða stundatafla gengur ekki alveg upp í okkar tilfelli þó að við séum mjög skipulögð hvað varðar flesta hluti hér á heimilinu – en skipulag er eitt af því sem að ég þarf í mínu lífi til að allt gangi sem best upp.
Ég ætla að svara nokkrum af þessum spurningum sem ég nefndi hérna á undan því að ég veit að það eru margir foreldrar i þessari stöðu.
Blandað fjölskyldumynstur, stjúpforeldrar og já kannski nokkrir sem ekki þora að stofna til nýrra sambanda vegna þess að þeir eru hræddir við þetta allt saman.
Þetta er oft mjög erfitt því að t.d með stjúpbörn þá þarf maður að fara varlega því að þetta eru ekki manns eigin þó svo að manni líði kannski þannig.
Það eru aðrar mömmur og aðrir pabbar sem eru að ala börnin upp með maka þínum en samt sem áður ert þú sem stjúpforeldri líka uppalandi og þetta getur verið svolítið flókin staða en í mínu tilfelli þá hef ég alltaf haft hag barnanna að leiðarljósi, verið klettur fyrir þau öll og ég sýni unnusta mínum fullan stuðning í því sem hann gerir.
Trúðu því að allir séu að gera sitt besta
Hjá blönduðum fjölskyldum koma auðvitað upp þau tilfelli að fólk er ekki sammála. Þá verður maður bara að trúa því að maður sjálfur og hinir séu að gera sitt allra besta, bera virðingu fyrir hinum foreldrunum en sérstaklega börnunum því að þau eiga það skilið að það sé borin virðing fyrir þeim. Þó að þau séu ung þá þurfa þau á því að halda til að þroskast og það er nú bara einfaldlega þannig að ef þú berð ekki virðingu fyrir þeim, hvernig getur þú ætlast til að þau beri virðingu fyrir þér?
Sumir segja að ég sé of róleg við börnin, að ég vilji hafa allt fullkomið, að ég sé of væmin…
Regla og skipulag
Varðandi það hvernig ég fari að eiginlega að þessu öllu þá vil ég nú bara enn og aftur taka það fram að ég á frábæran unnusta sem sýnir börnunum, sambandinu og heimilinu mikin áhuga og styður mig i öllu. Hann er nú samt fyrirvinnan okkar og því ekki alltaf heima og ég er reglulega ein með börnin. Þá er galdurinn minn einfaldlega skipulag, reglur, virðing, vinátta, kærleikur og aftur skipulag en ég þarf að skipuleggja tíma minn mjög vel því að ég þarf að veita öllum börnunum jafna athygli og auðvitað er dagamunur á börnunum eins og öllum öðrum.
Eina mínútuna eru þau bestu vinir og næstu rífast þau eins og hundur og köttur og það getur alveg tekið á enda erum við með tvær þriggja ára stelpur og tvö sex ára börn og metingurinn á milli þeirra getur stundum orðið svolítið mikill.
Þá sérstaklega eiga þau það til að berjast um stóra bróður sinn sem er 10 ára og verður mjög þreyttur á litlu systkinum sínum en við erum nú samt mjög heppin því þau eru nú oftast góðir vinir og er mikil ást á milli þeirra allra.
Sambandið og frítíminn – Knús og kossar
Varðandi frítímann og sambandið þá þarf bara að passa rosalega upp á að gefa hvoru tveggja tíma því það skiptir miklu máli til að manni líði vel.
Þó svo að suma daga höfum við ekki mikin tíma og séum mjög upptekin þá tekur ekki mikin tíma að stoppa í 10 sekúndur og knúsa hvort annað, eitt knús og smá koss getur breytt öllu á erfiðum dögum og að endurtaka þetta nokkrum sinnum yfir daginn kostar ekkert en getur breytt miklu hja þér eða maka þínum.
Taka kvöldin frá
Varðandi frítímann þá reyni ég nú oftast að vera búin að öllum heimilis verkum um það leiti sem börnin fara að sofa. Þó að það gangi ekki alltaf upp en ég reyni nú samt að setjast niður við sjónvarpið í klukkutíma og prjóna eða hanga á netinu, hringja í vinkonu eða taka sjálfa mig í smá dekur.
Margir foreldrar reyna að kaupa sér tíma með sjónvarpi og tölvuleikjum og við gerum það auðvitað líka annars lagið, sérstaklega ef það er mikill gestagangur en við pössum mikið upp á tölvutímann: Börnin lesa, lita, leika inni og úti ef veður leyfir, á hverjum degi.
Kýs að öskra ekki á börnin
Sumir segja að ég sé of róleg við börnin, að ég vilji hafa allt fullkomið, að ég sé of væmin og það má vel vera að það sé rétt, en ég er ekki sammála þvi að það eigi að öskra á börn því þau læra það sem fyrir þeim er haft. Varðandi að fullkomnunina þa snýr hún eingöngu að mér. Ég geri mitt allra besta á hverjum degi og þó að eg hafi byrjað á mörgu í gegnum tíðina og hætt þá get ég allavega sagt að ég hafi prófað en varðandi móðurhlutverkið þá er það að eilífu.
Þetta er eina vinnan og eina námið sem eg mun aldrei hætta í og ég segi námið því að börnin kenna mér eitthvað nýtt á hverjum degi, og með væmnina, það er einfaldlega aldrei hægt að sýna of mikin kærleik og það þurfa allir að heyra það að þeir séu elskaðir og að þeir séu að standa sig vel. Ég segi börnunum mínum og unnusta mínum það á hverjum degi, oft á dag.
Ég er lika bara svo heppin að ég virðist hafa endalausa þolinmæði fyrir fólki, sérstaklega börnum og ég er afar þakklát fyrir það. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í bili.
Það verður seint sagt að við Siggi séum fátæk. Við verðum bara ríkari með hverjum deginum og það verður sko ekki tómlegt hjá okkur á eldri árum þegar öll barnabörnin fara að bætast við.
Bjarney Vigdís er mikil áhugamanneskja um allt sem viðkemur heilsu, uppeldi, eldamennsku, tísku, förðun, handavinnu, fegrun heimilisins og öðru pjatti. Hún er menntaður förðunarfræðingur og er jafnframt framúrskarandi húsfreyja sem heldur einnig úti sinu eigin bloggi. Hún býr á vesturlandi í litlum bæ ásamt manni sínum og 6 börnum.