Við pjattrófur erum eins ólíkar og við erum margar og skoðanir okkar einstaklingsbundnar. Gigi var með gallabuxnafærslu sem gerði allt vitlaust og ég vildi koma með smá input í umræðuna. Því ég elska gallabuxur!
Ég vil helst vera í gallabuxum alla daga og á amk. 15 stykki sem ég nota reglulega. Ég hugsa með hryllingi til þess tíma sem ég neyddist til að vera í leggings þegar ég var ólétt og eftir það. Ég bætti á mig á meðgöngu og komst ekki í gallabuxurnar mínar fyrr en 6 mánuðum eftir að ég átti, ég vildi nefnilega ekki kaupa nýjar gallabuxur í stærri stærð, ég vildi passa í gömlu buxurnar, og það tókst með breyttu matarræði og púli í ræktinni.
Ég er þessi gella í Special K auglýsingunum sem vill passa í gömlu gallabuxurnar og vera með fínan gallabuxnarass.
Að mínu mati eru gallabuxur töff, þær eru rokk, þær ganga við flest tilefni og passa við flesta toppa og skó og ekki er verra að karlmönnum finnst fátt meira kynæsandi en flottur gallabuxnarass.
En ég skil vel að margar konur velja að sleppa gallabuxum, þær henta ekki öllum vexti eins og Gigi benti réttilega á.
Nokkur ráð varðandi val á gallabuxum;
- Konur með línur eiga að velja sér gallabuxur sem ná upp í mitti eða amk. 2-3 cm fyrir ofan mjaðmabein.
- Dökkir litir grenna.
- Stórir vasar minnka rassinn, litlir vasar með langt á milli breikka rassinn.
- Kona með breið læri og kálfa á frekar að velja bootcut heldur en niðurþröngar buxur.
- Gallabuxur með smá teygju eru þægilegri og flottari.
- Í dag er líka mikil sókn í svokölluðum jeggings, en það eru “galla- leggings”sem eru einstaklega þægilegar og klæða flestar konur.
- Það þarf að taka sér tíma í að máta gallabuxur og best er að hafa hreinskilna vinkonu eða manninn sinn með sér til að fá álit þeirra á vali á gallabuxum. Gangi ykkur vel.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.