Hvað gerist ef við vinnum EM? Það hefur verið er lygasögu líkast að fylgjast með velgengni Íslands á EM eins og þjóðin öll veit!
Hef ég sjálf í gegnum tíðina haft sáralítinn áhuga á fótbolta (bara fótboltamönnunum) en er svo spennt þessa dagana að ég er að tapa mér og það ótrúlega við þetta allt saman er að það mætti halda að ég væri skyggn, ég vissi að við myndum vinna Englendingana og ég þori nú varla að segja það en mig grunar að við vinnum frakkana á ævintýralegan hátt.
Eyjafjallajökull í mannsmynd
Eljan, vinnusemin og kappsemin sem einkennir strákana er rosaleg, þeir eru komnir svo langt að maður finnur sigurviljan, keppnisandann og víkingastemmuna alla leið frá France -það er magnaður krafturinn sem er í strákunum og þeir eru hreinlega ósigrandi, þeir eru Eyjafjallajökull í mannsmynd.
Það verður þrautinni þyngra fyrir litlu sætu frakkana að nálgast markið á sunnudaginn, vörnin hefur aldrei verið sterkari, allt spilið er útpælt hjá þeim, búnir að stúdera hvern einasta leikmann fransmanna í botn, vita meira segja hvað þeir borða í morgunmat.
Pínulítil en samt risastór
Við erum til alls vís á eftir! Við erum pínulítil en samt risastór, ofvirknin, hvatvísin og allir brestirnir eru mikið tilkomnir út af hrjóstugu landslaginu, eldvirkninni, jöklunum og eldsumbrotunum, þetta er víkingaflæðið, svona eru dugnaðarforkarnir frá Íslandi í hnotskurn, þess vegna eru strákarnir svona góðir, náttúra landsins er að tala!
Ævintýrið heldur áfram grunar mig, stemningin, orkan og allur heimurinn sem heldur með okkur er algjörlega til að færa fjöll, við getum þetta! Nú er bara liggja á bæn vona að ekkert komi fyrir neinn, það hefur ekki lifandi íslensk sála einu sinni tíma til að vera viðstödd fæðingu þegar leikur íslenska landsliðsins stendur yfir.
Ef við vinnum EM væri eina vandamálið enn stærri og feitari túristabylgja sem riði yfir litlu fallegu eyjuna…. En við komum til með að tækla það.
Dóra elskar að föndra við snittugerð en matur hefur alltaf haft mikil áhrif á hennar líf. Svo mikil að Dóra byrjar flesta morgna á að hugsa um hvað eigi að vera gott í kvöldmatinn. Hún býr á Seltjarnarnesi, á tvær æðislegar stelpur og sætasta golfara í heimi (að ólöstuðum okkar). Dóra lærði til lyfjatæknis árið 2001 en áhugamál hennar snúast um allt sem tengist mat, hreyfingu, dansi og útivist.