Hamingjan er ákvarðanataka. Vissulega er enginn alltaf hamingjusamur en það er hægt að einsetja sér að vera glaður og hamingjusamur eftir fremsta megni. Maður þarf bara að ákveða það.
Ég ætla að taka nokkur dæmi:
Það er ákvarðanataka að setja ekki hrútleiðinlegann grenjustatus á facebook.
Það er ákvarðanataka að vera kurteis við strákinn á kassanum í búðinni jafnvel þótt hann tali bjagaða íslensku og viti ekki hvað grænmetið heitir sem þú ert að kaupa.
Það er ákvarðanataka að tala ekki um hvað “Bíbí Brjáns” sé slæm með víni, heldur minnast frekar á það hvað hún baki nú alltaf góðar marengstertur.
Það er ákvarðanataka að hjálpa næsta manni ef maður mögulega getur, sérstaklega ef hann liggur alblóðugur í strætóskýli.
Það er ákvarðanataka að vera hvorki Indriði né Georg af því það er til alveg nóg af þeim í geimnum.
Það er ákvarðanataka að drulla ekki stöðugt yfir þáverandi, núverandi og komandi ríkisstjórnir. Það er í alvörunni ekki neinn sem fer í framboð sem vill sökkva þessu skeri. Fyrir utan að það hjálpar ekki nokkrum lifandi manni að nöldra um orðin hlut.
Það er ákvarðanataka að vera skemmtilegur og hress, sérstaklega við þá sem eru það ekki því þeir þurfa mest á því að halda.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta allt bara eitt stórt karma. það sem við sendum frá okkur fáum við til baka eða eins og meistarinn sagði: “Ef þú smælar framan í heiminn smælar heimurinn framan í þig”
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come