Seinustu ár hef ég lesið greinar, bækur og horft á marga fyrirlestra með því takmarki að læra að vera betri útgáfa af sjálfri mér; verða betri manneskja, elska sjálfa mig og verða jákvæðari.
Ég skrifa hjá mér það sem mér finnst eiga við mig og hef það aðgengilegt þegar ég vil geta flett því upp. Það er frábær bók sem heitir You Can Heal Your Life og er eftir Louise L. Hay, gefin út árið 1984 sem fjallar um hvernig breytingar á hugsunum geta breytt lífinu öllu.
Af hverju og hvernig geturu breytt hugsunum þínum?
Hugurinn okkar stjórnar okkur algjörlega – ef þú áttar þig á því að þú getur stjórnað þeim þá getur þú breytt sýn þinni á allt. Horfðu á heiminn á jákvæðari hátt, breyttu hugsunum þínum úr því að sjá það neikvæða í að sjá það jákvæða. Talaðu fallega við sjálfan þig, um aðra, umhverfið- og lífið þitt.
Hver ákvörðun sem við tökum og hugsanir sem við hugsum skilgreinir okkur – hver við erum og hver við verðum.
Við þurfum að taka ábyrgð á okkur sjálfum, lífið okkar er eins gott og við ákveðum að það sé. Það eru fullt af hlutum sem gerast fyrir okkur öll á lífsleiðinni en við stjórnum hvernig við tökumst á við það. Fyrirgefðu og með því losnar þú við byrði sem það er að bera gremju eða reiði. Elskaðu þig eins og þú ert:
„Ég get ekki orðið hamingjusöm“
„Ég get ekki hætt að vera þreytt“
„Ég er ekki nógu góð“
Segðu þessar setningar upphátt og spáðu í því hvernig þér líður og breyttu þeim svo í:„Ég get orðið hamingjusöm“
„Ég get hætt að vera þreytt“
„Ég er nógu góð!“
Hvernig líður þér eftir að segja þetta upphátt?
Aldrei myndum við dæma neinn jafn illa og við dæmum okkur sjálf, því þarftu að breyta. Þú mátt gera mistök, þú þarft ekki að vera fullkomin, það er enginn fullkominn. Hugsaðu jákvæðar hugsanir og talaðu fallega til þín, um þig og berðu virðingu fyrir þér sjálfri. Þetta verður ekki alltaf auðvelt… En þú verður að segja þetta, þú verður að trúa þessu. Fyrst þykir þér þetta jafnvel kjánalegt – en það er þess virði!
Hættu að baktala og tala illa um aðra
Byrjaðu á því að segja jákvæðar staðhæfingar um lífið þitt, upphátt og þá muntu sjá breytingar smátt og smátt á hugsunum þínum – Þú getur líka skrifað þær niður!
Skrifaðu líka niður fyrir hvað þú ert þakklát og hvað er gott í lífinu þínu – þú þarft að þjálfa hugann í því að sjá það góða!
Það skiptir svo miklu máli að vera góður við sjálfan sig, þú ert með þér allan daginn alla daga og ef þú elskar þig ekki, trúiru því þá þegar aðrir segjast gera það?
Ég trúi að þetta virki og ég reyni allaf að leiða hugsanir mínar á rétta braut, ég er alltaf að læra og er rétt að byrja á lífsleið minni og hlakka til að halda áfram.
Sylvía er einkaþjálfari, yin jóga kennari, heilsumarkþjálfi og eigandi Optimal Health sem er andleg og líkamleg þjálfun fyrir konur. Sylvía býr á Spáni ásamt syni sínum og Oreo kisunni þeirra.