Helga, eldri dóttir mín, var að byrja í 3.bekk í haust og hún, eins og allir hinir, áttu að koma með tímaritabox með sér í skólann til þess að geyma námsbækurnar í.
Mér fannst þessi ljósi viðarlitur eitthvað svo leiðinlegur svo við mæðgur ákváðum að gera þetta aðeins meira skvísulegra.
Við áttum til þessa fallegu sægrænu akrýl málningu hérna heima, hvíta kalkmálningu, skrautsteina og nokkrar sætar slaufur.
Með límbyssu að vopni og tvo klukkutíma aflögu varð afraksturinn þessi krúttlegu tímaritabox.
Við byrjuðum á því að mála boxin að innan með hvítri kalkmálningu því okkur fannst hvítt passa betur við svona túrkis lit. Því næst máluðum við boxið að utan og þau þornuðu á örskömmum tíma.
Svo röðuðum við upp skrautsteinunum eins og þeir áttu að vera á boxunum, H fyrir Helga.
Ég tók hvern stein upp með flísatöng, setti lím úr límbyssunni á stein og límdi beint á boxið, þetta gekk svo fyrir restina af steinunum.
Lím á slaufurnar og voilá! Daman var hæstánægð með föndrið okkar.
Einfalt og sætt fyrir eina í átta ára bekk. Þetta geta allir gert 🙂
____________________________________________________________
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður