Laugardagar eru til þess að njóta og gera vel við sig. Þess vegna lagaði ég mér ekki hinn hefðbundna kaffibolla í morgun. Ó, nei. Ég bauð sjálfri mér upp á svellkaldan Frappuccino og naut mín í botn.
Vanilla Mocha Frappuccino:
1 væn matskeið af skyndikaffi
1 og 1/2 bolli vatn
Hrært saman og sett í ílát sem má frysta og geymt í frysti í að minnsta kosti 4 tíma. Helst þó yfir nótt. Ég mæli með því að frysta kaffið bara eins og klaka, þá er auðvelt að ná því úr og betra að setja það í blandarann.
Það má auðvitað líka laga bara sterkt kaffi og frysta einn og hálfan bolla sirka. Að nota skyndikaffi er ekkert heilagt. Þegar kaffið er frosið og fínt fer eftirfarandi saman í blandara, matvinnsluvél, töfrasprota eða hvað sem þú kýst að notast við:
Frosið kaffi
1/2 bolli léttmjólk
3 teskeiðar vanilla extract (ég notaði sykurlaust vanillusýróp)
1 teskeið bökunarkakó
1 teskeið sykur
Allt að verða klárt fyrir töfrasprotann. Hérna sést einnig sýrópið sem ég notaði. Það fæst út um allt, Krónunni, Hagkaup og á ýmsum kaffihúsum.
Svona, nákvæmlega svona eiga laugardagsmorgnar að vera. Mæli með því að þú prófir – þetta er einfalt, fljótlegt og hrikalega ljúffengt.
(Uppskriftin kemur héðan).
Guðrún Veiga er mannfræðingur að mennt. Týpískt naut, kann vel að meta veraldleg gæði og þrjósk með eindæmum, fagurkeri og eyðslukló.
Naglalökk eru hennar helsti veikleiki og líkamsrækt stundar hún ekki en viðheldur brennslunni með óhóflegri kaffidrykkju.