Um daginn lærði ég að gera Chai Te frá grunni en það kom mér merkilega á óvart hversu gott þetta te er og ekki er ég mikil te manneskja fyrir.
Þar sem þú þarft er:
2/3 bolli vatn
1/3 bolli mjólk
1 heil kardimomma (fæst t.d. frá Pottagöldrum)
1 biti ferskt engifer
1 tsk hrásykur
1 tepoki
Settu vatnið og mjólkina í pott ásamt tepokanum, engiferinu og sykrinum. Hleyptu upp suðu og þegar suðan er næstum því komin upp er gott að kremja kardimommuna og setja út í blönduna.
Teið er tilbúið þegar þú ert orðin sátt við litinn en því lengur sem þú síður blönduna því meira tebragð kemur af drykknum. Mörgum þykir gott að setja meiri sykur, meira af kardimommum eða meira af engifer og er það allt í lagi þar sem smekkur manna er sem betur fer misjafn.
Að sjálfsögðu er mikilvægt fyrir Pjattrófur að setja teið í fallegan bolla en þessi drykkur er upplagður að bjóða upp á þegar tekona kemur í kaffi.
…já og mundu að sigta teið áður en þú hellir því í bollann.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.