Draumey Aradóttir, þýðandi, er sérlegur aðdáandi sjálfsþroskabóka en það kýs hún sjálf að kalla sjálfshjálparbækur.
Hún hefur lesið dágott safn af slíkum bókum en sú síðasta sem sló í gegn hjá henni, AÐ VELJA GLEÐI, var svo góð að hún ákvað að þýða hana yfir á íslensku til að leyfa okkur hinum að njóta hennar líka.
“Ég hef sjálf lesið fjöldann allan af bókum úr sjálfsþroskageiranum í gegnum tíðina, sótt námskeið og viðað að mér ýmsum fróðleik tengdum lífsleikni og sjálfsþroska. Þessi er á topp fimm listanum mínum, ásamt bókum Eckhart Tolle, Ný jörð og Kyrrðin talar, Spámanninum eftir Kahlil Gibran og Bókinni um veginn eftir Lao Tse. Bækur víetnamska búddamunksins Thich Nhat Hanh eru líka í miklu uppáhaldi hjá mér. Allt eru þetta náttborðsbækur; maður er aldrei nokkurn tíma búinn með þær,” segir Draumey sem hefur verið búsett í Svíþjóð um árabil en þaðan kemur einnig Kay Pollak, höfundur bókarinnar Að velja gleði.
Kay þessi er kvikmyndaleikstjóri, rithöfundur og fyrirlesari en Að velja gleði er önnur bók hans.
Það er nefnilega alltaf auðveldara að finna utanaðkomandi sökudólg, að beita frávarpi. En það erum við sjálf sem stýrum því hvernig okkur líður, ekki einhverjir atburðir eða annað fólk og hegðun þess.
-Draumey Aradóttir
“Þegar maður hefur sjálfur nýtt sér verkfæri Kay og tekið þá ákvörðun að velja gleðina, með allri þeirri lífsfyllingu og hamingju sem það hefur í för með sér, vill maður auðvitað gjarnan hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama. Ég hef í það minnsta viljað breiða út boðskapinn,” segir Draumey en bókin sló strax í gegn í Svíþjóð og varð metsölubók enda margir sem mæla með henni við vini og vandamenn.
Fullkomin fyrir byrjendur í andlega geiranum
Fyrir þá sem ekki hafa lagst í mikinn lestur slíkra bóka eða hugað að andlegum þroska og heilsu í sérlegum mæli er bókin virkilega aðgengileg og auðmelt. Hún er því kjörin gjöf til allra og kannski sérstaklega þeirra sem veitti ekki af því að brosa örlítið oftar. Kaflarnir eru stuttir og hnitmiðaðir og veita lesandanum verkfæri sem hann getur nýtt sér á leið sinni til aukins þroska – og meiri gleði! Hún er þess vegna frábær fyrir þá sem eru að hefja göngu sína á þroskabrautinni og vilja gott veganesti og leiðarvísi fyrir þá skemmtilegu en á stundum erfiðu för.
“Að velja gleði er fyrir alla þá sem vilja hleypa meiri gleði inn í líf sitt og eru tilbúnir að takast á hendur þá vinnu sem það kallar á og ekki síst að hafa hugrekki til þess að taka þetta skref; að líta inn á við og horfast í augu við sjálfan sig. Að skoða hvað býr að baki okkar eigin hugsana og þora að vinna með það. Það er nefnilega alltaf auðveldara að finna utanaðkomandi sökudólg, að beita frávarpi. En það erum við sjálf sem stýrum því hvernig okkur líður, ekki einhverjir atburðir eða annað fólk og hegðun þess. Okkar er alltaf valið; gleði eða leiði og fýla.”
Sá ljósið í baði og skrifaði leikstjóranum bréf
Við spurðum að lokum Draumey hvernig það æxlaðist að bókin komst í hennar hendur og hvernig stóð á því að hún þýddi hana.
“Það bar þannig að, að árið 2004 dreif ég mig í bíó ásamt þáverandi manninum mínum og sá myndina Sem á himni (Så som i himmelen) í bíó í Svíþjóð, þar sem ég er búsett. Ég hreifst mikið af henni og kom uppveðruð heim. Ég mæli eindregið með myndinni ef fólk á enn eftir að sjá hana, en hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna 2005 sem besta erlenda myndin.
Við maðurinn minn fórum í bað saman eftir bíóferðina og ég tók eftir því að þar sem að ég sveif næstum yfir vatninu af hamingju var hann að sökkva æ neðar í karið. Þegar ég bað hann að lýsa myndinni með þremur orðum voru þau eins ólík þeim sem ég hafði í huga og hugsast gat. Hann hugsaði um ofbeldi, dauða og vonleysi, eða álíka, en ég um opnun, ást og drauma sem rætast.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=WtkJlT3EkaM[/youtube]
Ég legg það í vana minn að hrósa fólki fyrir vel unnin verk og það gerði ég einmitt eftir að hafa séð þessa dásamlegu mynd. Ég hafði upp á leikstjóranum og skrifaði honum tölvupóst til að hrósa honum og mæra. Úr urðu ítarleg bréfaskipti sem fóru svo að lokum að við urðum ágætis vinir, ég og leikstjórinn Kay Pollak.
Ég sagði honum til dæmis frá þessu atviki í baðinu, og honum fannst þarna ljóslifandi komið kristaltært dæmi um hvernig það erum við sjálf sem stýrum viðbrögðum og upplifunum okkar af atburðum. Svona getur upplifunin verið gjörólík. Hans boðskapur er svo sá að það er á okkar valdi að velja hver og hvernig hún er.”
HÉR er Facebook síða bókarinnar.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.