Þau sem áttu miða á Línu Langsokk um síðustu helgi urðu fyrir vonbrigðum þegar öllum þremur sýningunum var aflýst vegna þess að Lína greyið, eða öllu heldur leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir, fékk vírus í raddböndin.
“Ég var með einhverja ertingu í hálsinum í tvo daga svo spratt þetta upp á fjórum klukkutímum á föstudagskvöldinu. Um klukkan sjö varð ég hás og á miðnætti var ég bara orðin alveg raddlaus, kom ekki upp orði,” segir Ágústa sem er rétt byrjuð að geta talað núna á mánudegi.
“Ég hef fengið svona einu sinni áður en þá lék ég í Englum Alheimsins. Þetta var samt ekki svona mikið þá, rétt slapp. Vanalega tekur svona sýking bara nokkra daga og gengur yfir en ég er með raddþjálfara sem ætlar að hjálpa mér að passa röddina svo ég geti notað hana. Nú verða fjórar sýningar á Línu um næstu helgi svo það ríður á að hafa röddina í lagi. Svo er verið að frumsýna Borgríki 2, Blóð hraustra manna á föstudaginn en á miðvikudaginn verður sérstök forsýning fyrir okkur sem vinnum að myndinni og aðstandendur. Ég mæti á báðar sýningar og það verður rosa fínt að geta talað við fólk þarna, ég vona að það takist.”
Ágústa Eva leikur sem fyrr hlutverk lögreglukonunnar Andreu í Borgríki en það var einmitt þegar hún undirbjó sig fyrir hlutverk hennar í fyrri myndinni sem hún kynntist Jóni Viðari sambýlismanni sínum og barnsföður, fyrrum lögreglumanni og núverandi Mjölnisforingja.
“Myndin hefst á því að Hannes, karakterinn sem Darri (úr Dexter) leikur er að reyna að komast í sérsveitina, það gengur ekki upp og því sækir hann um starf hjá innra eftirliti lögreglunnar. Hann fær starfið og fljótlega berast honum vísbendingar um að það sé svikari um borð í löggunni. Hann talar við Andreu sem fer í að njósna um þetta mál í samvinnu við yfirmann sérsveitarinnar Ívar (Hilmir Snær) en það endar með ósköpum,” segir Ágústa leyndardómsfull og neitar að sjálfsögðu að gefa meira upp því það getur skemmt fyrir áhorfendum myndarinnar.
Borgríki 2 – Blóð hraustra manna, verður frumsýnd almenningi á föstudaginn kemur og Lína mætir fílefld í slaginn í Borgarleikhúsið um næstu helgi með sérstaka glaðninga fyrir þau sem urðu af sýningum helgarinnar. Brjálað að gera hjá Ágústu.
Smelltu HÉR til að skoða FB síðuna fyrir Borgríki 2 – HÉR til að sjá síðuna hennar Ágústu og vinna kannski tvo miða á forsýningu myndarinnar á miðvikudaginn og smelltu á PLAY takkann til að horfa á sýnishorn úr myndinni. Þetta verður spennandi!
[youtube width=”625″ height=”425″]https://www.youtube.com/watch?v=IQ4JxyMrviU[/youtube]
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.