Höfuðborgarbúar sem elska bæði náttúru og góða veitingastaði ættu að stökkva hæð sína af kæti því nú hefur opnað veitingastaður í eldgömlu og afar krúttlegu timburhúsi úti við Gróttu á Seltjarnesi. Frá staðnum er bókstaflega magnað útsýni yfir Esjuna, Snæfellsjökul og sundin blá, svo ekki sé minnst á stjörnu og norðurljósadýrð því það er nánast engin ljósmengun á þessum fallega og friðsæla stað.
Húsið, sem heitir Ráðagerði, hefur staðið á lóðinni frá því það var reist árið 1880 og á það sér mjög langa sögu. Enginn hefur tölu yfir allar fjölskyldurnar sem þar hafa alið manninn síðustu rúmu 130 árin en skv þessari grein á mbl.is var enn búið í því fyrir tæpum tuttugu árum.

Undanfarin ár hefur húsið verið í eigu Seltjarnarnesbæjar en fyrir tveimur árum keyptu þrír veitingamenn húsið, þeir Gísli Björnsson, Jón Ágúst Hreinsson og Viktor Már Kristjánsson. Þeir fengu afhent í fyrra og það var svo á þessu ári sem kveikt var upp í ofninum, lagt á borðin og dyrnar opnaðar fyrir gestum.

Við Maríanna Pálsdóttir, eigandi Snyrtistofu Reykjavíkur, mæltum okkur mót á Ráðagerði í hádeginu í dag en staðurinn er í miklu uppáhaldi hjá henni.

Þegar ég mætti á svæðið var Maríanna búin að koma sér fyrir á fyrstu hæðinni við þægilegt borð úti í horni og byrjuð að grúska í tölvunni.

Eftir að hafa planað framtíðina pöntuðum við okkur þrjá rétti af matseðlinum og svo þetta líka dýrindis kaffi sem er örugglega það besta í bænum.
Eins og sjá má á myndunum þá er Ráðagerði og maturinn bara æði og ég hvet ykkur til að kíkja. Fínt að taka góðan göngutúr um Gróttusvæðið og enda svo í kræsingum eða kakóbolla í Ráðagerði.






Það er opið frá kl 10 á morgnanna og fram á kvöld. Happy hour síðdegis alla daga og bröns um helgar. Nóg af stæðum.
Sjáumst þar!



Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.