Ég er alltaf vongóð þegar kemur að myndum úr smiðju Quentin Taratino, en það átti alveg sérstaklega vel við þegar kom að Django Unchained.
Þó að Jamie Foxx sé skráður sem aðalleikari myndarinnar þá stelur Christoph Waltz algjörlega öllum atriðum sem hann birtist í, eins og hann gerir reyndar í flestum myndum sem hann er í.
Leikurinn í myndinni yfirleitt er mjög góður og það koma margir á óvart en mér fannst Kerry Washington vera fremst í þeim hópi, en hún leikur Broomhildu, eiginkonu Djangos, persónu Jamie Foxx.
Eins og margar aðrar myndir Quentins þá er Django mjög blóðug og oft á tíðum óþarflega mikið blóðug, en þetta er samt sem áður orðinn partur af myndum hans sem maður er farinn að venjast og jafnvel búast við og er oft á tíðum orðið svo fáranlegt að maður getur ekki annað en hlegið… Sem er að vísu annar einkennisstimpill á myndum hans, þær eru oft á tíðum svo fáranlegar að það er ekki annað hægt en að hlæja að þeim.
En þrátt fyrir að teygja sig oft út í fáranleika þá snertir Django samt á alvarlegum málefnum, enda er aðalþema myndarinnar þrælahald í Bandaríkjunum.
Myndin snertir við manni á afar sérstakann hátt og skilur eitthvað eftir sig, eitthvað sem alltof fáar myndir af svipuðum toga gera í dag.
Django Unchained fær vel verðskuldaða 8,7 á imdb, svo skelltu þér í bíó sem fyrst!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.