Sóley Kristjánsdóttir er náttúrubarn af guðs náð en fyrir utan skífuþeytingar, fyrirsætustörf og markaðssetningu á Red Bull og sterku áfengi er hún með hænur við heimili sitt í Breiðholti og ræktar þar stóran garð.
Sóley segist hafa fengið þessa flugu í höfuðið þegar hún las viðtal við bónda í Fréttatímanum en þar heillaðist hún af hugmyndinni um að vera með landnámshænur. Upp úr því hafði hún samband við kunningjafólk sitt Dísu og Bjarna á Skeggjastöðum og fékk hjá þeim fjórar hænur.
“Hænurnar eru allar ólíkar á litinn og heita hver sínu nafni en allir á heimilinu fengu að nefna sína hænu,” segir Sóley og hlær en hænurnar heita Freyja, Ljóshildur, Sunneva og Dimmeva.
Spurð að því hvort þetta sé dýrt hobbý segir hún svo ekki vera. “Ég fékk mér tilbúnar varphænur sem voru orðnar stórar. Þær eru aðeins dýrari af því það er búið að ala þær upp en slík hæna kostar 5000 kr stk og ég er með fjórar. Svo er ég búin að fjárfesta í hænskakofa og gerði og svona. Þetta er meira af hugsjón heldur en að græða á eggjunum,” segir Sóley og bætir við að það megi heldur ekki vera með hana í þéttbýli þar sem þeir eru mjög svo morgunglaðir og ef það er enginn hani þá koma ekki ungar. “Svo má maður ekki hafa fleiri en fjórar hænur þannig að ég er alveg með hámarksfjölda hérna.”
Á hverjum degi fær fjölskylda Sóleyjar um tvö til fjögur egg á dag en hver hæna verpir sirka tuttugu eggjum á mánuði.
“Ég safna eggjunum saman og svo er maður að gefa nágrönnunum og vinum og vandamönnum. Þetta eru auðvitað mikið betri egg enda veit maður alveg hvað þær eru að borða þessar elskur. Þær fá allskonar grænmeti og góðgæti. Svo fá þær líka að vera lausar úti og eru ekki í pínulitu búri eins og iðnaðarhænurnar. Rauðan í þessum eggjum er mikið rauðari og hvítan er þéttari í sér. Þegar maður sýður þau þá er filman mikið fastari á þeim en þessum verksmiðjueggjum,” útskýrir hún og bætir við að áður hafi hún alltaf keypt brúneggin. Landnámshænurnar hennar eiga þó talsvert betra líf.
“Ég keypti alltaf brúneggin en þær hænur fá samt ekki að fara út í dagsbirtuna og eru alltaf hafðar inni á hænsnabúum. Þær eru bara ekki í eins litlum búrum og hænurnar á stóru búunum og reyndar fá þær að ganga lausar inni en það er ekki á mjög stóru svæði og þar traðka þær um í skítnum hver af annari sem er ekki mjög geðslegt.”
Allt er vænt sem vel er grænt
Eins og fyrr segir er Sóley mikið náttúrubarn sem lætur sér ekki bara annt um dýrin heldur einnig gróðurinn.
“Ég er til dæmis með rosalega stóran garð sem mér finnst gaman að sinna en ég hef aldrei sett eitur í hann. Stundum koma ormar og vesen en það stendur yfirleitt bara stutt yfir og líður svo hjá. Svo má alveg finna náttúrulegar lausnir í staðinn fyrir eitrið. Þær eru í raun ótrúlega margar og virka jafn vel.”
Sóley var svo óheppin að handleggsbrotna um daginn þegar hún fór í útreiðartúr. Hún getur ekki beðið eftir því að komast úr gipsinu til að fara að baka enda skortir ekki eggin. Mest er hún þó í þessu upp á gamanið.
“Hænurnar eru líka yndislegar, hver hefur sinn karakter og svo eru þær mjög miklar hópsálir. Verða alveg týndar ef þær vantar í hópinn. Þær eru rosa duglegar að grafa og reyta og krafsa og leita eftir pöddum og svo geta þær tekið upp á því að stinga af og það er hrikalega erfitt fyrir þær. Þetta hefur komið fyrir og þá fer allt í uppnám. Við misstum eina út úr gerðinu sem stökk alla leið út á götu. Það var hrikalega erfitt að ná henni aftur, hún var alveg að fara á taugum og við komumst að því að það er alveg magnað hvað ein hæna getur hlaupið hratt, – alveg hraðar en manneskja,” segir Sóley og skellir upp úr.
Að lokum spyrjum við hana hvort hún sé ekki farin að borða töluvert meira af eggjum nú en áður og hún segir svo sannarlega vera. “Ég er búin að prófa flestar útfærslur af því hvernig maður matreiðir egg í morgunverð, eggjahrærur, egg Benedikt, ommilettur og svo framvegis og núna erum við líka alltaf með egg á hamborgarann,” segir þessi skemmtilega kona að lokum.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.