Leið mín til föndurlands hefur ekki verið auðveld. Oftar en einu sinni hefur reykskynjarinn farið í gang og ég hef jafnvel fengið símhringingar frá áhyggjufullum nágrönnum sem héldu að þriðja heimstyrjöldin væri um það bil að hefjast í íbúðinni minni.
(Áhyggjur þeirra voru byggðar á afar sannfærandi látum og tilheyrandi reykjarmökk – ég var að búa til jólakerti)
Hinsvegar hefur samblanda af heppni, æfingu og ströngum öryggisreglum gert það að verkum að seinustu föndurstúss mín hafa gengið nokkurnveginn upp. Þar á meðal voru DIY varalitirnir mínir en skemmtilegur lesendi sendi mér myndir þegar hann (karlkynið föndrar einnig) bjó til þessa fínu vaxlita varaliti líkt og ég gerði. Ég hvet ykkur eindregið til að prufa föndrið með mér ef þið treystið ykkur í það (og eruð með fersk batterí í reykskynjaranum).
Nú stefni ég á að gera eitt lítið og skemmtilegt föndurverkefni sem gengur út á að taka gúmmí gólfmottu og spreyja hana í fallegum neon-lit. Þú getur að sjálfsögðu valið hvaða lit sem er, ég er bara svona neon-kona.
Mottuna ætti að fást í hvaða blóma-hús-garða-fullorðins búð sem er, Byko–Bauhaus–Húsasmiðjan etc.
Spreybrúsa í fallegum neonlit ætti að fást á stöðum eins og Litir & Föndur.
Í besta falli ætti föndur þetta að ganga vel og í versta falli gera mig neon röndótta á höndunum.
Áður en við hefjumst handa er gott að spá í slysahættunni. Verið viss um að hafa stóran svartan rusalpoka undir mottunni því líklegast viljið þið ekki bílskúrsgólfið eða hvar þið framkvæmið gleðina verði eins og 80’s Pony hestar hafi haldið Fight Club æfingu. Verið með handska og ekki anda að ykkur efninu úr úðabrúsanum. Ég hef gert það og maður verður ekkert hress af því, meira svona bílveikur.
Látið hverja umferð þorna vel og gerið eins margar umferðir og þarf til þess að ná litnum eins vel og þið viljið fá hann. Passið að liturinn nái vel á alla kanta.
Sem raunsær föndrari þá geri ég mér grein fyrir því að eftir smá tíma, sé mottan notuð á gólfinu, muni liturinn byrja að brotna upp og mottan verða veðruð. Því geri ég ráð fyrir að hengja þær frekar upp á vegg og þar með sleppa við svefnlausar nætur þar sem ég naga á mér handabökin yfir sjúskuðum gólfmottum.
Það er alltaf gaman að vera með öðruvísi veggskraut og þannig getur þú vakið athygli á föndurleikni þinni fyrir gestkomandi, sem og aðra hæfileika sem þú hefur þróað með þér.
Góða skemmtun!
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.