Þegar skólinn byrjar aftur er oft þörf á tiltekt á skrifborðinu til þess að skóladótið fái sitt pláss.
Ég sá voðalega sniðuga hugmynd þar sem gamlar pappírsrúllur urðu að smekklegri hirslu undir penna og annað smádót.
Það sem til þarf er tréplata, pappa innan úr pappírsrúllum, lím, málningu og pensil.
- Safnið saman pappanum innan úr eldhúsrúllum, klósettrúllum og teiprúllum til dæmis. Ef rúllurnar eru allar af sömu stærð er upplagt að skera hluta af sumum rúllunum til þess að fá þær í mismunandi stærð.
- Grunnið pappann og tréplötuna.
- Með dass af þolinmæði, skaft á mjóum pensli og litríka málningu við hönd er munstrið málað eða öllu heldur punktað á – Þessu skrefi má auðvita sleppa eða mála munstur að eigin vali á.
- Þegar herlegheitin eru orðin þurr eru rúllurnar límdar á tréplötuna.
- Sniðugt er að lakka yfir til þess að fá smá glans og auðvelda þrif.
Ekki svo flókið og getur sómað sér á hvaða skrifborði sem er.
Eydís Halldórsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt. Fædd og uppalin í Eyjum, hefur verið búsett í Reykjavík síðustu ár en býr nú í Barcelona þar sem hún stundar mastersnám og nýtur lífsins. Tíska og hönnun er hennar helsta áhugamál. Eydís er tvíburi samkvæmt speki stjarnanna, fædd í maí 1990. Mail: eydishalldors@gmail.com