Mig var lengi búið að langa í hinar fullkomnu “high-waist” næntís gallabuxur. Ég er ALLS ekki gallabuxnatýpan og geng nánast eingöngu í kjólum eða pilsum svo að ég er mjög vandlát þegar kemur að því að brjóta þá hefð.
Ég fann oft buxur með fullkomna litnum en þá var sniðið ekki nógu gott, eða öfugt. Eftir langa leit gafst ég upp…
Ég fann eldgamlar gallabuxur úr H&M sem hafa verið notaðar í mesta lagi tvisvar. Þær voru fullkomnar í sniðinu en drepleiðinlegar á litinn.
Ég keypti klór og ákvað að aflita þær! Þetta er mun minna mál en ég hélt. Það eru til mjög margar aðferðir og lýsingar á netinu MJÖG mismunandi svo að ég ákvað að gera bara það sem mér datt í hug! – og það tókst heldur betur vel!
Það sem þú þarft:
- – Klór, hann er hræódýr og fæst í öllum matvöruverslunum. Ég notaði bónusklór. Hann kostaði 300 kr. fyrir 2 lítra.
- – Gúmmíhanska, klór er ertandi efni og því þarf að passa að láta hann snerta húðina sem minnst.
- – Uppþvottabursta
- – Fötu eða bala. – getur einnig gert þetta í botni á sturtu eða baðkari.
- – Draslföt – einn dropi af klór í föt getur skilið eftir blett sem næst ekki úr.
Ég hálf fyllti fötu af vatni og setti líter af klór á móti og lét buxurnar bíða í rúma tvo tíma í fötunni. Þetta er gert til að ná mesta litnum úr. Buxurnar mínar voru mjög dökkar, hafið þær í styttri tíma ef buxurnar eru ljósari.
Svo skolaði ég þær vel svo engir blettir sætu fastir og liturinn væri sem jafnastur. Næst setti ég klór í spreybrúsa og spreyjaði yfir buxurnar og nuddaði buxurnar með uppþvottaburstanum frekar fast. Takið lítil svæði í einu og skolið með vatni strax á eftir. Klórinn er fljótur að taka við sér svo þetta þarf að gerast frekar hratt.
Endurtakið þar til buxurnar eru í þeim lit sem þið eruð ánægðar með. Svo er bara að henda þeim í þvottavél á c.a 40 gráður og VOILA!
Athugið að það er erfitt að sjá litinn á buxunum þegar þær eru blautar. Mínar áttu t.d ekki að verða alveg svona ljósar en ég fattaði það ekki nógu fljótt.
Gott er að hafa við hönd blautar gallabuxur í svipuðum lit og þú villt að þínar endi. Þá sérðu strax hvenær þær eru orðnar nógu ljósar.
Stella Björt útskrifaðist úr Borgó 2010 og starfar nú sem verslunarstjóri í Topshop í Smáralind. Þess á milli tekur hún að sér stílistaverkefni og hefur tekið námskeið í stíliseringu í London College of Fashion en stefnir á fullt nám þar í framtíðinni. Stella er tvíburi.